Jesus gæti farið frá Arsenal - Möguleg stjóraskipti hjá Man Utd og Bayern - Dortmund vill halda Sancho
   mið 20. ágúst 2008 20:14
Hafliði Breiðfjörð
Umfjöllun: Ekkert færi U21 árs landsliðsins í tapi gegn Dönum
Eggert Gunnþór Jónsson stöðvar  Sören Christensen í leiknum í dag.
Eggert Gunnþór Jónsson stöðvar Sören Christensen í leiknum í dag.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Michael Lumb fylgt af velli eftir að hafa fengið höfuðhöggið.
Michael Lumb fylgt af velli eftir að hafa fengið höfuðhöggið.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Byrjunarlið danska liðsins með Kasper Schmeichel í fararbroddi í kvöld.
Byrjunarlið danska liðsins með Kasper Schmeichel í fararbroddi í kvöld.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Kolbeinn Sigþórsson í baráttunni við fyrirliða Dana sem skoraði síðara mark þeirra.
Kolbeinn Sigþórsson í baráttunni við fyrirliða Dana sem skoraði síðara mark þeirra.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ísland U21 0- 2 Danmörk U21:
0-1 Sören Rieks ('42)
0-2 Michael Jakobsen ('72, víti)

U21 árs landsliðs Íslands tapaði 0-2 fyrir því danska á KR-velli í kvöld. Um var að ræða æfingaleik milli þjóðanna.

Mikil endurnýjum er á íslenska leikmannahópnum og ungir drengir að koma þar inn, að hluta til má rekja það til þess að A-landslið Íslands er að yngjast og því nokkrir leikmenn sem hafa aldur fyrir U21 árs landsliðið sem eru þegar farnir að spila með A-landsliðinu.

Lítið sem ekkert gerðist fram á við hjá íslenska liðinu í dag og þar er verkefni fyrir þjálfarann Luka Kostic að finna út úr enda margir leikmanna liðsins duglegir fyrir framan mörk andstæðinganna með félagsliðum sínum.

Hinum megin á vellinum voru mun fleiri færi en Þórður Ingason markvörður Fjölnis sem hóf leikinn í markinu bjargaði nokkrum sinnum glæsilega frá frísku dönsku liði sem var miklu betri aðilinn á vellinum í kvöld.

Michael Lumb leikmaður AGF fékk höfuðhögg eftir tæpan stundarfjórðung og varð að fá aðhlynningu. Þegar honum var fylgt af velli verð ljóst að hann þurfti að fá skiptingu strax enda rétt náði hann að standa í fæturna. Ljóst var að hann hafði fengið vægan heilahristing og læknir danska liðsins fylgdi honum því inn í búningsklefa þar sem fylgst var með ástandi hans.

Eitthvað virðist höfuðhöggið hafa slegið út skyndiminnið hjá honum því hans síðasta minning var frá því í gærkvöld og hann skildi ekkert afhverju hann væri ekki inni á vellinum þegar honum var sagt að leikurinn væri byrjaður. Ástand hans var þó að batna þegar leið á leikinn og stefnt að því að leikmaðurinn fengi að fara með liðinu heim klukkan 01:00 í nótt.

Danir náðu forystunni í leiknum á 42. mínútu þegar Sören Rieks leikmaður Esbjerg fékk sendingu inn í teiginn frá vinstri kanti og íslenska vörnin virtist hafa misst af honum þegar hann skaust framfyrir þá og þrumaði boltanum beint í netið.

Engu munaði að Danir bættu öðru marki við mínútu síðar þegar Nicklas Petersen komst innfyrir vörn íslensku vörnina. Þórður markvörður kom langt út og Petersen vippaði boltanum yfir hann og að marki en á síðustu stundu náði miðvörðurinn Hólmar Örn Eyjólfsson að spyrna boltanum út áður en hann fór yfir marklínuna.

Staðan í hálfleik því 0-1 fyrir danska liðið og ekkert sem benti til þess að íslenska landsliðið ætlaði að jafna metin. Hættulegasta færi Íslands, ef færi skyldi kalla, átti Guðmundur Reynir Gunnarsson þegar hann þrumaði rétt framhjá markinu þar sem hann var vinstramegin á vítateigshorni.

Danir bættu svo við marki um miðjan síðari hálfleikinn. Varamaðurinn Ken Ilsö hafði þá átt frábæran einleik og spændi upp varnarmenn íslenska liðsins sem endaði á því að Eggert Gunnþór Jónsson sá þann kost vænstan að brjóta á honum til að stöðva hann. Brotið var innan vítateigs og því dæmd vítaspyrna.

Mickael Jakobsen fyrirliði danska liðsins tók spyrnuna og skoraði örugglega framhjá Þórði og staðan orðin 0-2. Þórði var umsvifalaust skipt af velli og spurði í gríni þegar hann gekk af velli hvort engin þolinmæði væri ef maður verði ekki víti! Það var þó ekki ástæðan enda Ingvar Jónsson löngu tilbúinn að koma inná þá og hafði aðeins beðið eftir skiptingunni.

Lítið gerðist eftir þetta, má þá helst telja upp skalla Matthíasar Vilhjálmssonar af stuttu færi eftir hornspyrnu sem var varinn í horn en ekkert alvöru færi er hægt að telja upp og því vann danska liðið örugglega 0-2.

Luka Kostic gerði sjö skiptingar hjá íslenska liðinu í dag enda um æfingaleik að ræða og fínt tækifæri fyrir hann að skoða menn fyrir alvöruna 5. september gegn Austurríki ytra og 9. september gegn Slóveníu í Víkinni.

Kasper Schmeichel markvörður Manchester City er eini þekkti leikmaðurinn í liði Dana. Hann var í byrjunarliði danska liðsins en fór af velli í hálfleik.

Ísland 4-3-3: Þórður Ingason (Ingvar Jónsson '72), Arnór Sveinn Aðalsteinsson, Hallgrímur Jónasson (Finnur Orri Margeirsson '46), Hólmar Örn Eyjólfsson, Guðmundur Reynir Gunnarsson (Jósef Kristinn Jósefsson '65), Heiðar Geir Júlíusson (Guðmundur Kristjánsson '46), Eggert Gunnþór Jónsson, Gylfi Þór Sigurðsson (Matthías Vilhjálmsson '64), Rúrik Gíslason (Kjartan Henry Finnbogason '64), Kolbeinn Sigþórsson, Birkir Bjarnason (Ari Freyr Skúlason '46).
Ónotaðir varamenn: (Enginn)

Danmörk: Kasper Schmeichel (Lasse Heinze ('46), Michael Jakobsen (Winston Reid '76), Daniel Wass, Magnus Troest, Michael Lumb (Rasmus Hansen '13), Sören Christensen, Thomas Enevoldsen (Mike Hansen '60), Nicklas Pedersen (Martin Christensen '76), Lasse Schöne, Sören Rieks (Ken Ilsö '60).
Ónotaðir varamenn: Jesper Lange.

Athugasemdir
banner
banner
banner