Van Dijk vill framlengja - PSG og Juve vilja Salah - Man Utd vill Rabiot
banner
   lau 27. september 2008 20:37
Gunnar Gunnarsson
Arnar Grétarsson: Áttunda sætið klárlega vonbrigði
Arnar Grétarsson í leik með Blikum í sumar
Arnar Grétarsson í leik með Blikum í sumar
Mynd: Fótbolti.net - Hörður Snævar Jónsson
Arnar Grétarsson fyrirliði Blika var skiljanlega ósáttur í leikslok þegar við hjá Fótbolta.net náðum tali af kappanum eftir ósigur liðsins gegn HK-ingum í dag:

,,Við töpum enn einu sinni og leiðinlegt að enda mótið svona, það er alveg klárt. HK-ingarnir mættu grimmir í byrjun, við kannski ekki alveg með á nótunum. Þeir skjóta í stöng strax í byrjun og skora svo þessi tvö mörk. Svoldið ódýr mörk satt best að segja," sagði Arnar og hélt áfram.

,,Í seinni hálfleik var svo stanslaus pressa af okkar hálfu, völlurinn bauð náttúrulega ekki upp á mikið og það var ekki að hjálpa okkur að spila við þessar aðstæður. En HK á hrós skilið, þeir skoruðu tvö fín mörk í byrjun. Það er alltaf erfitt að koma til baka," sagði Arnar svekktur í leikslok.

Það var ekki mikið í húfi fyrir bæði lið þegar kom að þessum leik, aðspurður hvort að það sé erftitt að gíra sig upp í svoleiðis leik hafði Arnar þetta að segja:

,,Jú, það má kannski segja það, en menn vilja nú klára sumarið með sigri og sérstaklega í nágrannaslag á móti HK en það er svoldið leiðinlegt hvernig við klárum mótið. Eftir tapið gegn KR í undanúrslitum bikarsins hefur leiðin verið dáldið niðrá við hjá okkur. Fjórir tapleikir í röð gegn Keflavík, Fylki, FH og nú HK. Núll stig eftir þessa leiki fyrir þetta lið er einfaldlega alltof lítil uppskera," sagði Arnar Grétarsson fyrirliði Blika.

Áttunda sætið var hlutskipti Breiðabliks þetta árið eitthvað sem menn þar á bæ eru ekki ánægðir né sáttir með og Arnar tók undir þau orð að þetta sæti væri mikil vonbrigði:

,,Klárlega, ég held að allir séu mjög ósáttir með þetta. Framan af vorum við að spila fínan fótbolta og vorum taplausir í góðan tíma. En við getum sjálfum okkur um kennt, við nýttum illa færin í mörgum leikjum og fáum svo á okkur ódýr mörk í bakið," sagði Arnar ósáttur með lokaniðurstöðu Íslandsmótsins.

Að lokum lék fréttaritara forvitni á að vita hvort Arnar hefði verið að leika sinn síðasta leik fyrir Breiðablik:

,,Það á bara eftir að koma í ljós. Það má vel vera að svo sé en það getur líka verið að maður endist eitthvað áfram. Ég hef mjög gaman af því að vera í kringum þessa ungu stráka og þetta heldur manni ungum að vera með þessum ungu vitleysingum," sagði Arnar í léttum tón að lokum.
Athugasemdir
banner
banner
banner