Jesus gæti farið frá Arsenal - Möguleg stjóraskipti hjá Man Utd og Bayern - Dortmund vill halda Sancho
   fim 07. október 2010 22:30
Alexander Freyr Tamimi
U21: Sterkt lið Íslands vann góðan sigur á Skotum
Ísland vann flottan sigur á Skotum í Laugardalnum í kvöld.
Ísland vann flottan sigur á Skotum í Laugardalnum í kvöld.
Mynd: Fótbolti.net - Einar Ásgeirsson
Jóhann Berg Guðmundsson var að öðrum ólöstuðum maður leiksins.
Jóhann Berg Guðmundsson var að öðrum ólöstuðum maður leiksins.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Stuðningur íslenskra áhorfenda var frábær.
Stuðningur íslenskra áhorfenda var frábær.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Einar Ásgeirsson
Ísland 2- 1 Skotland
0-1 Jamie Murphy (´19)
1-1 Jóhann Berg Guðmundsson (´34)
2-1 Almarr Ormarsson (´78)

Íslenska U21 landsliðinu tókst í kvöld að afreka það sem A-landsliðinu hefur gengið brösulega með undanfarin ár, að sigra lið Skotlands, en það gerðu þeir með tveimur mörkum gegn einu. Íslenska liðið var mun betra í leiknum og hefði hæglega getað skorað fleiri mörk. Þeir spiluðu boltanum mun betur á milli sín og ógnuðu talsvert meira en gestirnir. Með sigrinum færðust þeir skrefi nær því frábæra afreki að komast á Evrópumót U21 liða í Danmörku sem fram fer á næsta ári.

Skotarnir sköpuðu sér í raun ekki eitt einasta færi að frátöldu færinu sem skilaði markinu eftir klaufaleg varnarmistök. Aftur á móti voru bæði mörk Íslendinga stórglæsileg og má segja að þau hafi sýnt það svart á hvítu versu mun betra liðið var. Þeir þurfa þó að láta sér nægja þessi tvö mörk og er vonin sú að vannýting góðra færa muni ekki reynast strákunum dýrkeypt í seinni leiknum.

Það var ljóst frá fyrstu mínútum að Íslendingar væru með sterkara lið en gestirnir. Þeir voru strax mun meira með boltann og léku honum vel á milli sín. Greinilegt var þó að smá taugatrekkingur var í leikmönnunum, enda gríðarlega mikið í húfi.

Eftir tæpan tíu mínútna leik fengu Íslendingarnir fyrsta dauðafærið þegar Birkir Bjarnason kom í fyrirgjöf inn í teig sem munaði engu að Bjarni Þór Viðarsson næði að skalla í netið. Boltinn fór hins vegar framhjá honum og varnarmaður Skota skallaði rétt framhjá og í horn.

Einungis fimm mínútum síðar fékk liðið enn betra færi þegar áðurnefndur Birkir átti aftur góða sendingu inn í. Þar náði Kolbeinn Sigþórsson ágætis skoti sem markvörður Skota varði vel. Boltinn barst þá út í teig til Gylfa Sigurðssonar en aftur varði markvörðurinn. Bjarni Þór Viðarsson náði þá að skalla frákastið í átt að marki en boltinn fór í höfuð Gylfa og þar með var sókninni lokið.

Það var mikið áfall fyrir Íslendinga á 19. mínútu þegar Skotarnir komust yfir eftir hræðileg klaufamistök hjá Hólmari Erni Eyjólfssyni. Hólmar Örn hitti þá ekki boltann og framherjinn Jamie Murphy ruddist fram fyrir hann og var kominn einn gegn Arnari Darra Péturssyni markverði og skoraði hann af öryggi. Þess má til gamans geta að Arnar Darri fékk að vita það rúmum stundarfjórðungi fyrir leik að hann stæði á milli stanganna, en þá meiddist Haraldur Björnsson í upphitun.

Íslendingar héldu þó áfram að pressa og skömmu síðar átti Kolbeinn Sigþórsson skalla rétt framhjá. Það var þó ekki fyrr en á 34. mínútu sem Íslendingar jöfnuðu verðskuldað metin með stórkostlegu marki frá Jóhanni Berg Guðmundssyni. Boltinn barst þá út úr teignum til Jóhanns sem þrumaði knettinum viðstöðulaust í netið. Frábært jöfnunarmark og svo sannarlega verðskuldað.

Íslendingarnir héldu áfram að pressa og átti Kolbeinn meðal annars flugskalla rétt framhjá en mörkin í fyrri hálfleik urðu þó ekki fleiri.

Íslendingarnir byrjuðu síðari hálfleikinn á svipaðan hátt og sá fyrri og átti Jóhann Berg snemma fyrirgjöf á Kolbein sem enn mistókst að hitta skallanum á rammann. Kolbeinn var þó síógnandi í framlínunni og áttu varnarmenn Skota í mestu vandræðum með hann.

Skömmu síðar átti Gylfi Þór Sigurðsson fína rispu sem endaði með skoti undan teigs en markvörður gestanna varði örugglega.

Eftir tæpan klukkutíma voru Íslendingar enn og aftur hársbreidd frá því að komast yfir og enn og aftur var það Kolbeinn sem skallaði yfir markið eftir góða fyrirgjöf frá Jóhanni Berg. Sá síðarnefndi olli bakvörðum Skota miklum vandræðum og átti hann margar góðar sendingar inn í teiginn.

Fátt var í spilunum sem benti til þess að Íslendingarnir næðu þó að reka smiðshöggið og bæta við markinu eftir þetta. Skotarnir lágu aftarlega og eftir því sem Íslendingar færðu sig framar, því fleiri glufur opnuðust sem gestunum mistókst þó að nýta sér. Þeir voru augljóslega sáttir með jafntefli og útivallarmark og virtust ekki vera á því að hleypa öðru marki í netið, þó svo að það væri á kostnað þess að skora.

Það var þó lítið sem þeir gátu gert í því þegar varamaðurinn Almarr Ormarsson skoraði annað mark Íslendinga með þvílíku þrumuskoti. Hann hafði verið inni á í um það bil fimm mínútur þegar hann fékk boltann af rúmlega þrjátíu metra færi og þrumaði honum í netið. Gersamlega óverjandi skot og frábær innkoma hjá Almarri, enda á heimavelli. Annars var hann mjög ferskur þær mínútur sem hann var inni á og var nálægt því að leggja upp annað mark fyrir Kolbein.

Þegar flautað var til leiksloka var staðan þó enn 2-1 sem verða að teljast fín úrslit. Strákarnir okkar fara til Skotlands með sigur á bakinu og er það fyrir öllu. Það er þó grátlegt að hugsa til þess að miðað við spilamennskuna í kvöld hefðu þeir getað farið langleiðina með að tryggja sig áfram, en þetta frábæra lið er þó líklegt til að standast prófraunina úti í Skotlandi, þeir eru einfaldlega mun betri en Skotarnir.

Mætingin á völlinn var hreint út sagt stórkostleg og betri en á mörgum A-landsleiknum. Alls létu 7255 áhorfendur sjá sig, sem verður að teljast frábært, og er óhætt að fullyrða að aldrei hafi fleiri látið sjá sig á U21 landsleik, og örugglega ekki einu sinni nálægt því. Stuðningur áhorfenda var frábær og voru leikmenn því mjög þakklátir. Þeir vita því hversu mikinn bakhjarl þeir hafa er þeir ganga út á völlinn í Skotlandi næstkomandi mánudag.

Byrjunarlið Íslands: Arnar Darri Pétursson (M), Skúli Jón Friðgeirsson, Eggert Gunnþór Jónsson, Hólmar Örn Eyjólfsson, Hjörtur Logi Valgarðsson, Gylfi Þór Sigurðsson, Aron Einar Gunnarsson, Bjarni Þór Viðarsson, Birkir Bjarnason, Jóhann Berg Guðmundsson, Kolbeinn Sigþórsson.
Varamenn: Þórður Ingason (M), Almarr Ormarsson, Björn Bergmann Sigurðarson, Guðmundur Kristjánsson, Alfreð Finnbogason, Kristinn Jónsson, Guðlaugur Victor Pálsson.

Byrjunarlið Skotlands: Alan Martin (M), Paul Caddis, Thomas Scobble, Daniel Wilson, Paul Hanlon, Scott Arfield, David Wotherspoon, Stephen McGinn, Chris Maguire, Jamie Murphy, Barry Bannan.
Varamenn: Scott Gallacher (M), Ross Perry, Jason Marr, David Goodwillie, Leigh Griffiths, David Templeton, Andew Shinnie.

Maður leiksins: Jóhann Berg Guðmundsson
Gul spjöld: Scott Arfield (Skotlandi), Hólmar Örn Eyjólfsson (Íslandi), David Goodwillie (Skotlandi), Skúli Jón Friðgeirsson (Íslandi).
Dómari: Bas Nijhuis, Hollandi
Áhorfendur: 7255!!
banner
banner
banner