Man City leiðir kapphlaupið um Musiala - Man Utd hefur áhuga á Toney - Arsenal endurskoðar áætlanir
   mán 01. apríl 2024 00:10
Brynjar Ingi Erluson
Fyrrum vonarstjarna Hollands yfirgefur Slavía Prag
Mynd: EPA
Tékkneska félagið Slavía Prag hefur komist að samkomulagi við hollenska sóknartengiliðinn Mohamed Ihattaren um að rifta samningi leikmannsins.

Ihattaren er 22 ára gamall en fyrir fimm árum síðan var hann á lista Guardian yfir efnilegustu leikmenn heims.

Þá var hann á mála hjá PSV í heimalandinu en aðeins tveimur árum síðar var honum hent úr aðalliðinu eftir að hann lenti upp á kant við þjálfarann.

Hollendingurinn var til alls konar vandræða og fór það svo að hann yfirgaf PSV um sumarið og samdi við ítalska stórveldið Juventus en spilaði ekki leik á tveimur árum sínum hjá félaginu.

Leikmaðurinn hefur komið sér í vesen á flestum þeim stöðum sem hann hefur spilað síðustu árin, innan sem utan vallar. Fyrir tveimur árum var hann til rannsóknar hjá hollensku lögreglunni vegna mögulegra tengsla við Mocro-mafíuna í Marokkó og á síðasta ári var hann handtekinn vegna gruns um að hafa beitt kærustu sína ofbeldi.

Síðasta sumar náði hann samkomulagi við tyrkneska félagið Samsunspor en það hætti við að fá hann vegna óraunhæfra krafna.

Tékkneska félagið Slavía Prag tók sénsinn á honum í desember og gerði þá eins árs samning með möguleika á að framlengja um þrjú ár til viðbótar, en í tilkynningu kom fram að hann myndi æfa með varaliðinu til að byrja með.

Í dag náði félagið samkomulagi við Ihattaren um að rifta samningi hans. Hann er því laus allra mála en það er spurning hvaða félag er reiðubúið að veðja á þessa fyrrum vonarstjörnu Hollendinga.


Athugasemdir
banner
banner
banner
banner