„Ég er drullufúll. Ég óska FH til hamingju með þennan sigur þær áttu hann skilið," sagði Jóhann Kristinn Gunnarsson þjálfari Þórs/KA eftir tap gegn FH í 6. umferð Bestu deildar kvenna á Akureyri í kvöld.
Lestu um leikinn: Þór/KA 0 - 2 FH
„Við byrjuðum mjög vel. Ég held að þetta sé besta byrjunin okkar í sumar. Allar voru gíraðar og ákveðnar í þetta, við pinnuðum þær alveg niður, svo er það bara þannig því miður að við náum ekki að koma boltanum yfir línuna og þær skora úr sínu fyrsta færi. Við látum það því miður hafa of mikil áhrif á okkur."
FH komst yfir eftir hálftíma leik og þá dró heldur betur úr leikmönnum KA.
„Mér fannst aðeins glitta í þetta í seinni hálfleik en við náðum aldrei neinni stjórn á leiknum. Þær (FH) gerðu þetta vel, það er bensín á tankinn þegar vonin rennur um æðarnar á manni og þær fundu lykt af sigri í seinni hálfleik. Við náðum ekki þessari sameiningu sem hefur einkennt okkur og ég held að við höfum látið mótlætið fara aðeins of mikið í okkur," sagði Jóhann.