„Það er mikil tilhlökkun fyrir leiknum í kvöld. Það er fínt veður, völlurinn er góður og þetta eru tvö lið sem eru á góðu skriði. Það er skemmtilegt fyrir íslenskan fótbolta að fá svona góðan leik á góðum degi," sagði Rúnar Kristinsson, þjálfari KR, við Fótbolta.net um stórleikinn sem er framundan gegn Breiðabliki klukkan 19:15 í kvöld.
Um er að ræða toppslag en KR er stigi á undan Breiðabliki fyrir þennan leik.
„Við þurfum að vera mjög þéttir varnarlega. Þeir eru mjög sterkir fram á við, sérstaklega í skyndisóknum. Við þurfum að vera varkárir í okkar leik og æða ekki með alla fram strax til að skora. Þetta verður miðjubarátta og smá taktísk barátta. Blikarnir eru frábærir eins og þeir hafa sýnt í allt sumar og það verður erfitt við þá að eiga."
KR-ingar settu upp bretti við hlið stúkunnar í gær til að koma fleiri áhorfendum fyrir í kvöld.
„Við erum að reyna að búa til stemningu og vonumst til að það komi mikið af fólki. Við höfum trú á því. Aðstaðan mætti vera betri en við erum að reyna að gera eitthvað til að taka á móti fleira fólki og vonandi koma margir áhorfendur í kvöld og sjá hörkuleik á milli tveggja góðra liða," sagði Rúnar.
Hér að ofan má sjá viðtalið við Rúnar í heild sinni.
Athugasemdir