„Maður er bara í skýjunum með stelpurnar, í skýjunum með karakterinn sem þær sýndu. Þetta var alltaf að fara að vera erfiður leikur og fátt sætara en að enda hann með þessum hætti og komast áfram“ sagði Ásmundur Arnarsson, þjálfari Breiðabliks, eftir sigur á Stjörnunni í undanúrslitum bikarsins í dag.
Lestu um leikinn: Stjarnan 3 - 6 Breiðablik
„Frammistaðan var kannski kaflaskipt. Ég held að heilt yfir hafi Stjarnan átt fleiri skot á markið, nokkrum sinnum í þverslána og annað slíkt en við vorum alltaf líklegar samt og sýndum það um leið og við þurftum á því að halda. Þá gátum við komið til baka þannig að bara fullt hrós á stelpurnar.“
Í úrslitaleiknum, sem spilaður verður á Laugardalsvelli þann 12. ágúst, mæta Blikar Lengjudeildarliði Víkings. R og aðspurður við hverju má búast við í þeim leik segir hann:
„Ég býst við skemmtilegum leik. Það er frábær stemning í Víkinni, mikill meðbyr með þeim í sumar og þær eru með hörkulið. Það verður vonandi góð mæting og skemmtilegur leikur tveggja góðra liða“
Viðtalið má sjá í heild sinni í spilaranum hér fyrir ofan.