Kristinn Jónsson hefur tilkynnt að hann muni ekki vera áfram hjá KR.
Þessi 33 ára gamli bakvörður hefur verið í sex ár í Vesturbænum en hann sendi frá sér tilkynningu á Instagram síðu sinni í kvöld.
„Eftir sex frábær ár í KR hef ég tekið þá ákvörðun að breyta til. Ég hef gefið allt í verkefnið og er gifurlega stoltur af þessum tíma í KR-treyjunni. Margt stendur upp úr, Íslandmeistara titillinn 2019, fólkið sem ég hef kynnst í kringum klúbbinn, stuðningmenn og liðsfélagarnir í gegnum árin," skrifaði Kristinn og þakkar félaginu fyrir sig.
Hann var í liði KR sem hafnaði í 6. sæti Bestu deildarinnar síðasta sumar.
Óljóst er hvað tekur við en hann hefur verið orðaður við Breiðablik og gæti einnig fylgt Rúnari Kristinssyni fyrrum þjálfara sínum hjá KR sem tók við Fram á dögunum.