Fyrrum landsliðsmaðurinn Ari Freyr Skúlason var orðaður við heimkomu í síðasta mánuði. Hann var í þjálfarateymi Norrköping á liðnu tímabili og var með lausan samning. Hann segir við Fótbolta.net að þrjú íslensk félög hafi sett sig í samband við sig. en hann hafi látið vita að hans fyrsti kostur væri að vera áfram úti. Það reyndist svo raunin, hann fékk nýtt samningstilboð frá Norrköping og tók því.
Ari var orðaður við aðstoðarþjálfarastarfið hjá Breiðabliki því Arnór Sveinn Aðalsteinsson hætti í því hlutverki eftir tímabilið. Ólafur Ingi Skúlason er þjálfari Breiðabliks og hann og Ari þekkjast vel. Ari ræddi við Fótbolta.net í dag.
Ari var orðaður við aðstoðarþjálfarastarfið hjá Breiðabliki því Arnór Sveinn Aðalsteinsson hætti í því hlutverki eftir tímabilið. Ólafur Ingi Skúlason er þjálfari Breiðabliks og hann og Ari þekkjast vel. Ari ræddi við Fótbolta.net í dag.
Norrköping alltaf í forgangi
„Það er fyndið hvernig sögusagnir og allt það er í fótboltaheiminum. Óli sendi eitt sms á mig og það var bara það, ekkert meira. Ég var í sambandi við þrjá aðila og sagði skýrt að Norrköping væri kostur númer eitt.. Fjölskyldan er númer eitt, tvö og þrjú og möguleikinn að vera áfram úti var efstur á blaði, en ég lokaði engum dyrum. Svo kom samningstilboð frá klúbbnum hérna úti og á endanum samþykkti ég það. Þetta var því ekki komið eins langt og menn sögðu á Íslandi með að ég væri að koma heim. Það var bombað í mig fréttum og ég spurður hvort ég væri að koma heim. Þetta var bara eitt sms og ég átti bara að vera klár," segir Ari og hlær. Samkvæmt heimildum Fótbolta.net hafði KR einnig samband við Ara.
„En það er gaman að fólk hugsi til manns þótt maður sé erlendis. Ég og Óli erum mjög góðir vinir og hann tók mig inn í teymið hjá U21 þegar hann þurfti á hjálp að halda. Við náum mjög vel saman og það hefði klárlega verið skemmtilegur kostur ef maður hefði ætlað að flytja heim."
„Það var mjög lengi óvissa með mína framtíð hjá Norrköping. Samningurinn hefði runnið út 31. desember og ég var búinn að bíða í þónokkra mánuði um hvernig framhaldið yrði. Þegar Magni (Fannberg) var íþróttastjórinn hérna þá sagði hann mér að ég þyrfti ekki að hafa neinar áhyggjur, en svo var hann farinn stuttu seinna. Ég vildi fá allt klárt, er með þrjú börn og konu, maður þarf að vera með vinnu. Þeir sem ég talaði við á Íslandi vissu að ef það kæmi samningur á borðið hér úti þá yrði hann í forgangi hjá mér."
Breyting á hlutverki
Er samningurinn framlenging á fyrri samningi eða breytist starfið eitthvað milli tímabila?
„Þegar ég hætti í fótbolta fór ég í hlutverk sem 'transition' þjálfari (tenging milli yngri flokka og aðalliðs), en það var mjög loðið hlutverk og ekki alveg mótað af klúbbnum þegar ég tók við því. Ég var hluti af aðalliðsteyminu fyrsta árið. Á öðru ári tók ég við U19 liðinu, klúbburinn vildi að ég myndi öðlast reynslu með því, en ég var líka hluti af aðalliðinu til að byrja með og er því í tvöföldu starfi. Svo veiktist einn aðstoðarþjálfarinn og ég var þá færður alfarið upp í aðalliðið. Þar var ég einn af aðstoðarþjálfurunum og sá um föstu leikatriðin á liðnu tímabili."
„Núna fækkar aðeins í teyminu hjá aðalliðinu, þjálfarinn (Martin Falk) var keyptur frá okkur til Molde og það er nýr þjálfari (Eldar Abdulic) tekinn við. Ég fer í annað hlutverk sem heitir á ensku 'player developer', er hluti af aðalliðsteyminu og sé um leikmannaþróun. Ég sé um að fylgjast með þeim, að þeir fái aukaæfingar og hvaða markmið þeir séu með - alveg frá elsta leikmanni og niður í þá yngstu. Það er mjög skemmtilegt. Ég sé um myndbandsklippur og fylgi því eftir að menn fylgist með markmiðum allra," segir Ari sem er 38 ára gamall.
Svíþjóð heimili númer tvö
Hann lék sem atvinnumaður með Häcken, Sundsvall og Norrköping og hefur alls verið í rúman áratug í Svíþjóð á fótboltaferlinum.
„Svíþjóð hefur verið heimilið mitt meirihlutann af ferlinum mínum. Strákarnir eru fæddir í Svíþjóð og eru komnir inn í akademíuna hjá Norrköping og líður rosa vel. Þegar okkur gekk svona illa þá töluðu börnin um að við værum ekki að fara flytja heim. Ég sé Svíþjóð sem heimili númer tvö. Þar sem fjölskyldan er, þar er heimilið. Ég er búinn að vera úti í 23 ár núna, kominn helvíti langur tími síðan ég var síðast á Íslandi."
„Það er engin hugsun um heimkomu á einhverjum tímapunkti. Núna er ég í þjálfaranum, nýbyrjaður í því og gæti verið í því í 30 ár í viðbót. Það gæti vel verið að maður endi á Íslandi og fari svo aftur út, eða verði úti allan tímann. Svona er fótboltaheimurinn, alveg eins og þegar maður er leikmaður, maður veit aldrei hvað gerist. Þetta er rosalega óöruggt umhverfi varðandi vinnu," segir Ari.
Athugasemdir




