Branthwaite á lista Man Utd - Lampard vill ræða við Rangers - Messi ætlar að klára ferilinn í Argentínu
   fös 02. júní 2023 16:05
Enski boltinn
Vinnubrögðin til skammar - „Er ekki hægt að gera þetta daginn eftir?"
Oliver Kahn og Hasan Salihamidzic hér með Thomas Tuchel.
Oliver Kahn og Hasan Salihamidzic hér með Thomas Tuchel.
Mynd: EPA
Kahn er goðsögn hjá Bayern.
Kahn er goðsögn hjá Bayern.
Mynd: EPA
Bayern München tryggði sér sigur í þýsku úrvalsdeildinni síðasta laugardag á dramatískan hátt.

Bayern tilkynnti eftir deildarsigurinn að félagið væri búið að reka Oliver Kahn úr stöðu framkvæmdastjóra og Hasan Salihamidzic, yfirmann íþróttamála. Báðir voru þeir frábærir leikmenn fyrir félagið, en kveðjurnar voru kaldar eftir síðasta deildarleikinn og fengu þeir ekki að fagna með liðinu.

Þeir félagarnir voru reknir fyrir það hvernig þeir stjórnuðu á bak við tjöldin en Bayern var ósannfærandi á tímabilinu sem var að líða. Ákvörðun þeirra um að reka Julian Nagelsmann í mars og ráða Thomas Tuchel var athyglisverð en gengi liðsins var afar slakt eftir þessa breytingu og var Bayern nálægt því að kasta frá sér titlinum.

Rætt var um þessa ákvörðun Bayern í síðasta þætti af Enski boltinn en þar var það kalt viðmót þýska stórveldisins gagnrýnt.

„Þeir eru í þeirri stöðu að ef þeir vinna ekki titilinn afgerandi að þá er þetta bara flopp," sagði Jón Júlíus Karlsson, framkvæmdastjóri Grindavíkur, um Bayern í þættinum. „En starfandi hjá íþróttafélagi finnst mér algjörlega fáránleg vinnubrögð að reka framkvæmdastjórann og yfirmann fótboltamála á vellinum þegar liðið verður meistari."

„Þeir búa til vond andrúmsloft þegar þeir voru að vinna titilinn með einhverju kraftaverki. Hvernig ætlar þú að laða inn einhvern í að starfa hjá Bayern sem framkvæmdastjóri ef þú ert rekinn á vellinum þó þú verðir meistari?"

„Er ekki hægt að gera þetta daginn eftir? Snyrtilega á skrifstofunni. Í staðinn fyrir að það sé verið að tilkynna Oliver Kahn þetta út á velli," sagði Jón.

„Þetta er líka goðsögn hjá félaginu," sagði Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson og átti þar við um Kahn. „Þetta er algjörlega til skammar þessi framkoma, alveg sama hvort þessi ákvörðun sé rétt eða röng. Það hlýtur eitthvað verkalýðsfélag að rýna í þetta. Ég vona að Sólveig Anna þeirra Þjóðverja verji Oliver Kahn með kjafti og klóm... þetta er ekkert annað en niðurlæging."

Lokaumferðin í Þýskalandi var ótrúleg en hún var rædd aðeins í hlaðvarpinu sem má hlusta á í heild sinni hér fyrir neðan.
Enski boltinn - Verðlaun veitt eftir að veislan kláraðist
Athugasemdir
banner
banner