Malen, Maguire, Rashford, Greenwood, Yoro, Eriksen og fleiri góðir í slúðri dagsins
   lau 02. júlí 2022 10:50
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Herzogenaurach
Þrjár mikilvægustu hjá okkur? - Mesti sigurvegari sem Ísland á
Tíu sérfræðingar svara tíu spurningum fyrir EM
Icelandair
Sveindís Jane Jónsdóttir.
Sveindís Jane Jónsdóttir.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Sara Björk Gunnarsdóttir.
Sara Björk Gunnarsdóttir.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Karólína, Gunnhildur og Glódís.
Karólína, Gunnhildur og Glódís.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Liðsheildin er sterk.
Liðsheildin er sterk.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd sem var tekin eftir sigurinn á Póllandi á dögunum; Sandra markvörður, Gunnhildur og Hallbera eftir leik.
Mynd sem var tekin eftir sigurinn á Póllandi á dögunum; Sandra markvörður, Gunnhildur og Hallbera eftir leik.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Sandra María Jessen, leikmaður Þórs/KA, er á meðal sérfræðinga. Hún á að baki 31 landsleik fyrir Ísland.
Sandra María Jessen, leikmaður Þórs/KA, er á meðal sérfræðinga. Hún á að baki 31 landsleik fyrir Ísland.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Það styttist í Evrópumótið þar sem íslenska landsliðið verður í eldlínunni. Við fengum tíu vel valda sérfræðinga til að svara tíu spurningum sem tengjast landsliðinu okkar áður en mótið fer af stað.

Á næstu dögum munum við birta þessar spurningar og svar sérfræðinganna við þeim. Við byrjum á spurningunni: Hvaða þrír leikmenn eru mikilvægastir í okkar liði?

Bára Kristbjörg Rúnarsdóttir, aðstoðarþjálfari Selfoss
Það eru margar reynslumiklar í þessu liði sem hafa farið á stórmót og munu vera mjög mikilvægar. Það er erfitt að nefna bara þrjár en ég ætla að segja að Sveindís verður ómissandi í að brjóta upp varnir með hraða sínum og löngum innköstum, Glódís mun stýra línunni og halda aga í varnarleiknum vellinum og Karólína Lea er búin að vera frábær í síðustu leikjum fyrir og okkur og hún kemur með X-faktorinn sóknarlega - hún sér sendingar sem aðrir sjá ekki og er svo ótrúlega skapandi leikmaður.

Eiður Ben Eiríksson, þjálfari
Sem mikilvægir leikmenn í íslenska liðinu að þá held ég að númer eitt sé það Glódís sem okkar sterkasti varnarmaður og mikilvægust í varnarlínunni. Númer tvö er Sara Björk, þegar ég hugsa um íslenska liðið þá er Sara fyrsti leikmaðurinn sem kemur upp í hugann. Sara er frábær leiðtogi og þekkir sín takmörk 100% og það gerir hana að þeim leikmanni sem hún er. Númer þrjú - og þá hef ég valið leikmann í öllum línum - er Sveindís; hún er með hraða sem nýtist í öllum liðum og X-faktor sem gerir það að verkum að öll lið hræðast að spila á móti henni og þurfa andstæðingar Íslands alltaf að breyta til í sínu skipulagi til þess að bregðast við Sveindísi.

Eva Björk Ben, RÚV
Það er ómögulegt að velja þrjár þar sem leikmenn hafa stigið upp á mismunandi tímum og það sást svo vel í fjarveru Söru Bjarkar að það eru ekki einn eða tveir leikmenn sem halda þessu liði uppi. En ef maður er tilneyddur þá myndi ég velja Glódísi Perlu, Söru Björk og Sveindísi Jane. Glódís er stöðugur og öruggur varnarmaður og lykilmaður í vörninni. Það þarf auðvitað ekki að hafa mörg orð um Söru og ef hún verður upp á sitt besta á mótinu þá verður hún afar mikilvæg og þá ekki síst upp á peppið og andann í liðinu. Sveindís er búin að fá mikið lof undanfarið en hún er bara til alls líkleg og ein af þeim leikmönnum sem maður myndi treysta gegn hvaða varnarmanni sem er því hún hefur bæði hraðann og styrkinn og getur búið til færi úr nánast engu.

Guðbjörg Gunnarsdóttir, fyrrum landsliðsmarkvörður
Glódís, Sveindís og vélmennið Gunný.

Helena Ólafsdóttir, fyrrum landsliðsþjálfari
Mér finnst erfitt að telja upp þrjár mikilvægustu leikmennina þar sem við eigum marga mikilvæga leikmenn í þessum hóp og liðsheildin kannski mikilvægust.

Ég set það á Söndru Sigurðardóttur, Glódísi Perlu Viggósdóttur og Sveindísi Jane Jónsdóttur.

Það er mjög mikilvægt að hafa traustan markvörð sem Sandra er. Eins er Sandra orðin mjög reynslumikil og hún þarf að nýta sér það í keppni sem þessari. Auka vörslur skipta máli og Sandra á eftir að standa sig. Glódís Perla er leiðtogi í okkar varnarleik og líka orðin reynslumikil. Það mun mikið mæða á henni enda geri ég ráð fyrir að það muni mæða mikið á okkar öftustu línu. Að lokum nefni ég Sveindísi enda er hún einn mest spennandi leikmaður í þessari keppni. Hún þarf að nýta styrkleika sína og leggja upp eða skora mörk. Íslenska liðið mun væntanlega nýta hana vel sóknarlega og að sjálfsögðu líka í föstum leikatriðum eins og innköstum. Hún mun væntanlega leggja mörk upp þannig.

Ingunn Haraldsdóttir, KR
Glódís Perla er fæddur leiðtogi og sterkur hlekkur í þessu liði, fyrir utan það að vera frábær varnarmaður er hún líka góð í fótunum og gífurlega mikilvæg í öllu uppspili. Endurkoma Söru Bjarkar á síðan eftir að reynast liðinu ansi vel, enda fyrirliði og höfuð liðsins síðustu ár. Það mun ekki skipta miklu máli hve fáar mínútur hún hefur spilað nýlega þar sem hún er mesti sigurvegari sem Ísland hefur alið af sér og er alltaf að fara að draga vagninn. Við getum svo verið nokkuð viss um að Sveindís ætli sér stóra hluti á þessu Evrópumóti, konan sem kaffærði Arsenal í Meistaradeildinni í vetur hefur alla burði til að verða stjarna þessa móts og mun án efa reynast drjúg í markaskorun liðsins.

Kristján Guðmundsson, þjálfari Stjörnunnar
Liðsheildin er lykilatriði og allir leikmenn eru mikilvægastir til að mynda þann styrk sem þarf til þess að liðið standi sig vel.

Nik Chamberlain, þjálfari Þróttar
Sara Björk - Tenging hennar á milli varnar og sóknar gefur liðinu aðra vídd. Sara er best spilandi miðjumaðurinn og að hún geti stjórnað tempóinu og verið á boltanum, sérstaklega gegn Frakklandi og Ítalíu, mun vera lykillinn að því að komast upp úr riðlinum.

Sveindís - Hún hefur bætt sig ótrúlega mikið undanfarið ár. Hún er núna með betri taktískan skilning á báðum hliðum boltans og hún er farin að sýna meiri stöðugleika á síðasta þriðjungi vallarins. Hraði hennar og beinskeytni mun valda bakvörðum allra þjóða vandræðum og hún mun ná yfirhöndinni á endanum.

Glódís - Þetta er erfiður riðill að komast upp úr með Ítalíu og Frakklandi svo við verðum að vera á tánum í vörninni. Hún er hjartað í vörninni, hún skipuleggur vörnina og les leikinn vel; hún er bara frábær alhliða varnarmaður.

Orri Rafn Sigurðarson, fréttamaður
Glódís Perla, Sveindís Jane og Karólína Lea. Kannski margir hissa á að Sara Björk, Dagný eða Gunnhildur séu ekki þarna hjá mér. Glódís er einfaldlega okkar mikilvægasti leikmaður, það er ekki hægt að fylla í hennar skarð. Hún þarf að eiga topp mót til þess að við komumst langt á EM. Hinar tvær eru Sveindís Jane og Karólína Lea. Það er kominn tími til að þessar yngri taki keflið, taki ábyrgð og beri liðið yfir endalínuna. Þær eru báðar að spila með liðum í hæsta gæðaflokki og eru tvær af okkar mest skapandi leikmönnum sóknarlega.

Sandra María Jessen, Þór/KA
Glódís Perla, Gunnhildur Yrsa og Sveindís Jane. Glódís býr yfir gæðum, leikskilningi og leiðtogahæfileikum sem hjálpar liðinu að hámarka hæfileikana. Gunnhildur er hreinlega sláttuvélin okkar á miðjunni, það er ekkert kjaftæði í boði hjá henni. Alltaf er allt gert 100 prósent og sömu kröfur gerir hún á liðsfélagana. Sveindís er síðan gullkornið okkar, hraði og gæði sem fáir búa yfir. Hún á eftir að koma liðum á óvart og brjóta upp leikinn með sterku einstaklingsframtaki.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner