| fim 01.jan 2026 10:00 Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð |
|
UTAN VALLAR: KSÍ sér fram á 185 milljón króna taprekstur árið 2026
Í lok nóvember hélt KSÍ árlegan fund formanna og framkvæmdastjóra aðildarfélaga. Á þeim fundi var meðal annars farið yfir rekstraráætlun KSÍ fyrir árið 2026.
Greinin var einnig birt á utanvallar.is
Áætlun KSÍ fyrir árið 2026
KSÍ gerir ráð fyrir því að rekstrartekjur ársins 2026 verði tæplega 1,9 milljarðar króna, hátt í 200 milljónum krónum lægra en áætlað er að rekstrartekjur ársins 2025 séu. Þessa lækkun má að mestu leyti rekja til lækkunar á tekjuliðnum, styrkir og framlög. Í glærukynningunni þar sem farið var yfir áætlunina er þessi 200 milljón króna lækkun skýrð af fjórum mismunandi áhrifaþáttum. Í fyrsta lagi er það lækkun á tekjum frá UEFA vegna þátttöku A-landsliðs karla í C-deild Þjóðadeildarinnar. Í dreifibréfi frá UEFA sem var birt 12. desember síðastliðinn má sjá að landslið sem taka þátt í C-deild Þjóðadeildarinnar fá 1.250.000 evrur, rúmlega 166 milljónir króna á núverandi gengi. Hins vegar fá landslið sem taka þátt í B-deild Þjóðadeildarinnar 1,5 milljónir evra, tæplega 222 milljónir króna. Það landslið sem vinnur svo sinn riðill fær þessa þátttökugreiðslu tvöfaldaða. Annar áhrifaþáttur sem var nefndur var lækkun á miðasölutekjum þar sem landsliðin munu mæta minna spennandi mótherjum. Þriðji áhrifaþátturinn var svo lækkun á greiðslum frá styrktaraðilum út af gengi liðsins, sem hljóta þá að vera auglýsingasamningar með klásúlum tengt árangri landsliðanna. Fjórði áhrifaþátturinn sem var nefndur var breyting á fyrirkomulagi á bókun tekna vegna UEFA fjárfestingastyrkja.
Rekstur KSÍ síðustu ár
Ef ekki verður ráðist í aðgerðir gerir KSÍ ráð fyrir því að tap verði af rekstrinum sem nemi tæplega 185 milljónum króna. Miðað við áætlun ársins 2025 er gert ráð fyrir því að sambandið muni skila hagnaði upp á 37 milljónir króna. Ef við horfum yfir fimm ára tímabil, þ.e. 2021-2026, má sjá að afkoma ársins 2026 er sú lægsta á umræddu tímabili, að því gefnu að ekki verði ráðist í aðgerðir. Uppsafnað tap á þessu fimm ára tímabili nemur rúmlega 103 milljónum króna, en þó hefur rekstrarafkoman verið jákvæð upp á tæpar 289 milljónir króna á þessu tímabili.
Aðgerðir sem KSÍ ætlar í til að rétta reksturinn af
Ýmsar aðgerðir eru nefndar til þess að mæta þessum hallarekstri. Í fyrsta lagi er tekið fram að KSÍ gæti notið góðs af veikingu krónunnar gagnvart evrunni og bandaríkjadal. Evran hefur styrkst þónokkuð gagnvart krónunni undanfarin misseri. Þá hefur bandaríkjadalurinn einnig styrkst gagnvart krónunni frá því sem var í sumar, en bandaríkjadalurinn er þó ennþá nokkuð lægri en hann var fyrir ári síðan. Þátttökugjöld aðildarfélaganna munu hækka en Geir Þorsteinsson, framkvæmdastjóri KR og fyrrum formaður KSÍ, skrifaði pistil um þá hækkun á Facebook síðunni sinni eftir þennan fund hjá KSÍ þar sem hann var ósáttur við þessa hækkun. Framvegis munu svo félög sem leika til úrslita í umspilinu í Lengjudeild karla greiða hvort um sig vallarleigu upp á 750 þúsund krónur fyrir að nota Laugardalsvöllinn. Sömu sögu er að segja um úrslitaleik fotbolti.net bikarsins, en þar munu félögin hvort um sig greiða 250 þúsund krónur. Þá kemur fram að niðurskurður í landsliðsverkefnum muni nema tæplega 60 milljónum króna og að hagræðing á skrifstofu KSÍ nemi 10 milljónum króna. Þessi hagræðing á skrifstofunni er að öllum líkindum tengt uppsögninni á Stefáni Sveini Gunnarssyni, fráfarandi markaðsstjóra KSÍ. Garðar Leifsson, markaðsstjóri knattspyrnudeildar FH, vakti athygli á þessari uppsögn og furðaði sig á þessari ákvörðun KSÍ. Í fundargerð stjórnar KSÍ þann 20. nóvember er snert stuttlega á þessari uppsögn. Þar kemur fram að uppsögnin er hluti af skipulagsbreytingum þar sem markaðssvið og samskiptadeild KSÍ verði sameinuð.
Ræður KSÍ við 185 milljón króna taprekstur?
Í árslok 2024 nam handbært fé KSÍ samtals 346,5 milljónum króna, en gengið var verulega handbæra féð árið 2023 þegar það lækkaði um 284 milljónir króna. Það ár var KSÍ rekið með tapi upp á tæplega 127 milljónir króna. Ef litið er á sjóðstreymið frá því ári má sjá að lækkun handbærs fjár má rekja að miklu leyti til kaupa á varanlegum rekstrarfjármunum upp á ríflega 182 milljónir króna. Þá sést einnig í sjóðstreyminu að handbært frá rekstri árið 2023 var jákvætt um 6,6 milljónir króna sem gefur til kynna að reksturinn sjálfur hafi verið í fínum skorðum. Það sem vó þungt þar voru afskriftir sem námu 47 milljónum króna og fjármagnsliðir sem voru jákvæðir upp á tæpa 41 milljón króna. Fyrir árið 2026 gerir áætlun KSÍ ráð fyrir því að afskriftir nemi 48,6 milljónum króna. Ef þessar afskriftir eru teknar út fyrir sviga er rekstrarafkoma (EBITDA) KSÍ neikvæð upp á 66 milljónir króna. Þá gerir KSÍ ráð fyrir því að fjármagnsliðir verði jákvæðir upp á 26 milljónir króna árið 2026.
Skuldamál KSÍ eru í góðum farvegi miðað við 2024 ársreikninginn. Árið 2024 samanstóðu skuldir KSÍ af fyrirframinnheimtum tekjum (frá UEFA og FIFA), viðskiptaskuldum og öðrum skammtímaskuldum (að mestu leyti laun og launatengd gjöld). Skuldahlutfall KSÍ nam 49,2% árið 2024 og veltufjárhlutfallið nam 140,7%.


