Ísak Snær Þorvaldsson hefur farið með himinskautum á yfirstandandi leiktíð. Hann var auðvitað á skotskónum í gær í 3-1 sigri á gömlu félögunum í ÍA.
Ísak er búinn að skora tólf mörk á þessari leiktíð og er markahæstur í Bestu deildinni. Auk þess er hann búinn að leggja upp fjölda marka ofan á það.
Ísak er búinn að skora tólf mörk á þessari leiktíð og er markahæstur í Bestu deildinni. Auk þess er hann búinn að leggja upp fjölda marka ofan á það.
Ísak hefur upp á síðkastið verið orðaður við norska stórveldið Rosenborg. Rosenborg keypti Kristal Mána Ingason frá Víkingi fyrr í sumar og er Ísak Snær sagður næstur á lista.
Rætt var um þetta í útvarpsþættinum Fótbolta.net um helgina, hvort að Ísak gæti verið á förum.
„Rosenborg getur enn sótt leikmenn héðan þó að við getum ekki sótt leikmenn frá Rosenborg," sagði Elvar Geir Magnússon. Félagaskiptaglugginn á Íslandi lokaði í síðustu viku en hann er enn opinn annarsstaðar í Evrópu.
„Breiðablik er ekki að fara að selja Ísak Snæ Þorvaldsson. Þeir ætla að vinna báða titlana. Með honum eru líkurnar á því að þeir geri það svona 95 prósent," sagði Tómas Þór Þórðarson en hann er pottþéttur á því að Ísak fari ekki núna í þessum mánuði. Hann fari frekar þá í janúar þegar félagaskiptaglugginn í Evrópu lokar aftur.
Það yrði svo sannarlega gaman að sjá Kristal og Ísak saman í Rosenborg, en hvort það gerist er stór spurning. „Ég gæti séð hann fara til Þrándheims og við fáum þá Kristal og Ísak saman," sagði Elvar Geir.
„Það væri svo geðveikt, þá þyrfti maður að finna sér stað til að horfa á norska boltans," sagði Tómas en hann telur að það sé engin ástæða fyrir Blika að selja leikmanninn öfluga núna - það geti beðið.
En hvernig seldu þeir hugmyndina?
„En svo er spurning þegar Ísak kemur í verkefnið til Breiðablik, hvernig voru þeir að selja hugmyndina? Voru þeir að selja honum það að hann gæti farið út þegar það kæmi tilboð frá alvöru félagi?" spurði Elvar.
Verkefnið hjá Víkingum og Kristali Mána var að hjálpa honum að komast aftur út í atvinnumennsku. Hvernig er það hjá Ísaki?
„Það er stóra málið í þessu, ef hann er með heiðursmannasamkomulag um að hann megi fara þegar það kemur alvöru tilboð," sagði Tómas en hann telur að svo sé ekki því þá væri búið að selja Ísak núna.
Hægt er að hlusta á alla umræðuna í spilaranum
Athugasemdir