Van Dijk vill framlengja - PSG og Juve vilja Salah - Man Utd vill Rabiot
   fös 02. ágúst 2024 14:30
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Skoraði í fyrsta leiknum í þrjú ár - „Mér leið bara furðulega vel"
Fagnar marki sínu gegn Þrótti Vogum.
Fagnar marki sínu gegn Þrótti Vogum.
Mynd: Helgi Þór Gunnarsson
Fyrsti leikurinn í þrjú ár.
Fyrsti leikurinn í þrjú ár.
Mynd: Helgi Þór Gunnarsson
Ætlar að reyna að hjálpa KFG meira.
Ætlar að reyna að hjálpa KFG meira.
Mynd: Helgi Þór Gunnarsson
„Þetta var óvænt en skemmtilegt," segir Guðjón Baldvinsson, sóknarmaður KFG, í samtali við Fótbolta.net í dag. Á dögunum tók hann fram takkaskóna aftur en hann gerði sér lítið fyrir og skoraði í sínum fyrsta fótboltaleik í þrjú ár.

Guðjón, eða Gaui eins og hann er kallaður, er 38 ára gamall en hann lagði skóna á hilluna vegna þrálátra meiðsla eftir tímabilið 2021.

Hann kom inn á sem varamaður í leik KFG gegn Þrótti Vogum í 2. deild í vikunni. Gaui gerði sér lítið fyrir og jafnaði metin og tryggði sínum mönnum stig.

„Félagar mínir eru að þjálfa þarna, Andrés og Veigar, og voru búnir að tékka á mér reglulega. Ég vissi ekki hvernig hnéð og líkaminn væru. Við ákváðum bara að prófa þetta. Svo leið mér vel í upphitun og ég fékk einhverjar 15 mínútur. Það var mjög góð tilfinning," segir sóknarmaðurinn.

„Ég hugsaði þegar ég var að koma inn á og staðan var 3-1 að það væri séns en þetta yrði svolítið erfitt. Það var líka ekkert sérstakt veður. En við náðum að snúa þessu við og það er jákvætt."

En hvernig var markið?

„Ég fylgdi bara eftir á fjær, bara gamla góða. Þegar maður er ekki í því standi sem maður er vanur að vera í, þá þarf maður að vera rétt staðsettur. Ég var bara inn í teig og þetta tókst. Það var gaman að þessu."

„Að finna þessa tilfinningu að skora og fagna, maður var nánast búinn að gleyma þessu. Þetta gefur mér mikið. Það er gott að hnéð hefur haldið og vonandi getur maður kannski notið þess að vera í fótbolta í tvö ár í viðbót eða eitthvað," segir Guðjón.

Honum leið vel eftir leikinn, betur en hann bjóst. Hann stefnir á að hjálpa KFG í síðustu leikjum tímabilsins.

„Mér leið bara furðulega vel eftir leikinn. Ég hélt ég yrði eitthvað stífur daginn eftir en ég er bara mjög góður. Þetta lofar góðu fyrir næstu leiki, að geta spilað meira. Markmiðið er bara að falla ekki, að hjálpa liðinu að halda sér í deildinni. Svo þarf ég að sjá til hvernig þetta verður svo í vetur, hvort maður fari að æfa og verði í alvöru standi á næsta ári."

Hringrás fótboltans
Dagur Orri Garðarsson skoraði hin tvö mörk KFG í leiknum en hann er sonur Garðars Jóhannssonar, fyrrum liðsfélaga Guðjóns úr Stjörnunni.

„Jú, ég þekki pabba hans vel. Þetta er efnilegur strákur og mikill markaskorari. Vonandi get ég leiðbeint honum og hjálpað strákunum. Það eru margir ungir strákar þarna. Ég get vonandi hjálpað mönnum að vaxa."

„Ég er orðinn svo vanur að sjá Daníel Laxdal spila með mínum strák. Við erum orðnir gamlir og þetta er ekkert skrítið. Það er bara gaman að þessu. Þetta er það sem maður getur gert undir lok ferilsins, að njóta þess að hjálpa ungu strákunum að koma upp. Þetta er hringrás fótbolta og hún er skemmtileg," sagði Guðjón að lokum.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner