Newcastle vill kaupa Elanga - Memphis til Corinthians - Barca ætlar að fá Nico Williams - Casemiro og Eriksen mega fara - Kovacic íhugar framtíð sína...
banner
   fös 02. ágúst 2024 17:15
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Stuðningsmenn Vals um þjálfarabreytingarnar: Eitthvað varð að gera
Arnar Grétarsson kveður Val.
Arnar Grétarsson kveður Val.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Túfa tekur við.
Túfa tekur við.
Mynd: Aðsend
Valsmenn eru í þriðja sæti Bestu deildarinnar.
Valsmenn eru í þriðja sæti Bestu deildarinnar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Gylfi Þór Sigurðsson fagnar marki í sumar.
Gylfi Þór Sigurðsson fagnar marki í sumar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Það var tilkynnt seint í gærkvöldi að Arnar Grétarsson hefði verið látinn fara sem þjálfari Vals. Srdjan Tufegdzic, alltaf kallaður Túfa, tekur við og hefur skrifað undir þriggja ára samning við félagið. Haukur Páll Sigurðsson verður aðstoðarmaður Túfa.

Þetta voru ansi óvænt tíðindi en þau koma beint eftir að Valur tapaði gegn St. Mirren frá Skotlandi í forkeppni Sambandsdeildarinnar í gærkvöldi.

Fótbolti.net heyrði í nokkrum stuðningsmönnum Vals í dag og fékk þeirra álit á þessum breytingum. Hérna eru svörin:

Arnar Sveinn Geirsson, fyrrum leikmaður Vals
Eins og ég hef komið inn á í einhvern tíma að þá var tilfinningin mín sú að þessi vegferð með Arnari væri búin og að mínu mati er þetta því það besta í stöðunni fyrir alla aðila. Auðvitað er alltaf leiðinlegt þegar hlutirnir ganga ekki upp en þetta er harður bransi og kröfurnar hjá Val eru eins miklar og þær verða.

Ég er ánægður með þessa breytingu og hlakka til að sjá hvaða áherslur Tufa kemur með strax - en svo þarf hann auðvitað að fá tíma til að móta liðið. Það er mikilvægt að hópurinn hafi trú á honum sem ég trúi að sé raunin - en alltaf áskorun að hafa verið aðstoðarþjálfari og verða aðalþjálfari. Það er nóg eftir af þessu móti, þetta er frábær hópur og nú er það bara að setja fulla ferð á að ná í þennan titil.

Jóhann Már Helgason, fyrrum framkvæmdastjóri Vals og sérfræðingur Dr Football
Heilt yfir hefur árangur Vals verið vonbrigði það sem af er tímabili; 8 sigrar úr 15 leikjum í Bestu deildinni er einfaldlega ekki nægilega gott fyrir lið sem ætlar sér Íslandsmeistaratitilinn. Mestu vonbrigðin voru þó leikurinn gegn KA á Akureyri, þar sem liðið var í dauðafæri að komast í bikarúrslitaleik gegn Víkingum. Það hefur einfaldlega vantað herslumuninn upp á hjá Arnari Grétarssyni hjá Val. Tapið gegn Fram gerði svo útslagið, varnarleikur liðsins hefur heilt yfir verið slakur í sumar og þar náði hann nýjum lægðum - eitthvað varð að gera. Þess vegna skil ég þessa ákvörðun stjórnar Vals ágætlega.

Ég er ekki sannfærður um að Túfa sé rétti maðurinn til að taka við Valsliðinu. Hann er vissulega afar vel liðinn á Hlíðarenda eftir að hafa aðstoðað Heimi, en að sama skapi hefur hann ekki náð neinum alvöru árangri sem þjálfari sem réttlætir það að hann fari inn í eitt stærsta þjálfarastarf á Íslandi. Hann mun þó klárlega koma með meiri gleði inn í klefann og létta aðeins á andrúmsloftinu sem var, að maður heyrir, orðið býsna þungt undir lokin hjá Arnari.

Jóhann Skúli Jónsson, Draumaliðið
Persónulega var ég reiðubúinn að gefa Arnari Grétarssyni úr því sem komið var þetta tímabil og gefa honum tækifæri á að gera atlögu að titlinum. Hawk Túfa er flottur þjálfari en mér líður nákvæmlega eins með sigurlíkur Vals eins og fyrir 30 klukkutímum síðar og þar af leiðandi sé ég ekki alveg fyrir hvern þessi brottrekstur er. Óhjákvæmilega hefur maður heyrt orðrómana um að það væri ekki allt að smella og að stjórn væri að íhuga stöðu Arnars í mjög langan tíma. Það eru nokkur moment sem eru að vega þungt hjá Arnari. Tap liðsins gegn Grindavík í bikarnum í fyrra fór mjög illa í menn, miskunnsamir Samverjar eins og ég vorum þó tilbúnir að skrifa það á töfra bikarkeppninnar. Tapið gegn KA í ár var virkilega þungt, það hafa verið leikir í ár sem hafa verið virkilega frústrerandi þar sem maður getur alveg fært rök fyrir því að leikmannahópurinn hafi brugðist honum (rauð spjöld hér og klúður á dauðafærum þar, ég nefni engin nöfn en viðkomandi vita nákvæmlega hverjir þeir eru). Á endanum skaparðu samt þína eigin heppni og yfir tveggja ára tímabil þá geturðu ekki sannfært stuðningsmenn Vals um að titlaleysið stafi af óheppni. Séð utanfrá og samkvæmt umræðunni í eitruðum spjallhópum sýnist manni leikmannahópurinn smá hafa fengið sínu framgengt. Það væri því geðveikt að sjá þá taka við sér og klára þetta tímabil á milljón því við erum ennþá í bullandi möguleika á að vinna þetta mót.

Hvað gerist eftir tímabilið verður fróðlegt. Ég er algjörlega á því að eina rökrétta skrefið fyrir Val á þeirra vegferð sé að ráða inn erlendan þjálfara. Við erum búnir að prófa allt á Íslandi og ef þjálfarinn heitir ekki Freyr Alexandersson eða Heimir Hallgrímsson þá hef ég eiginlega ekki tíma fyrir það. Þú mátt reyndar bera þetta aftur undir mig í vetur ef Tufa klárar titilinn.
Túfa tekur aftur til starfa á Hlíðarenda: Þetta gerðist allt mjög hratt
Athugasemdir
banner
banner
banner