Í vikunni sem leið átti Þorvaldur Örlygsson formaður KSÍ fund með Aleksander Ceferin forseta UEFA þar sem rædd voru ýmis hagsmunamál og framþróun íslenska fótboltans.
Málefni þjóðarleikvangsins, Laugardalsvallar, voru rædd sérstaklega, og fram kom að þrátt fyrir þau góðu skref sem þegar hefðu verið tekin með sjálfan leikflötinn þá yrði uppbyggingin að halda áfram og að tryggja þyrfti sem fyrst að leikvangurinn - m.a. búningsklefar og önnur íþróttaleg aðstaða uppfylli alþjóðlega staðla.
Eins og lesendur vita er komið hybrid gras á Laugardalsvöllinn.
„Þegar fótboltinn blómstrar þá hagnast allir, allt frá ungu fólki til samfélagsins í heild. Það er mikilvægt að fá stuðning frá stjórnvöldum í löndunum til að tryggja nútíð og framtíð íþróttarinnar," segir Ceferin meðal annars í grein á heimasíðu UEFA þar sem fjallað er um fund Þorvalds og Ceferin.
Í greininni segir að þeir tveir eigi mjög gott samband sem byggist á trausti og samvinnu.
Athugasemdir