
Íslenska landsliðið er komið saman til æfinga fyrir komandi leiki við Aserbaídsjan og Frakkland. Gísli Gottskálk Þórðarson, miðjumaður Lech Poznan, er í fyrsta sinn í landsliðshóp og gæti spilað sinn fyrsta leik í verkefninu. Fótbolti.net náði tali af Gísla fyrr í dag.
„Tilfinningin er geðveik, þetta er það besta sem maður getur hugsað sér sem íslenskur fótboltamaður, að vera í landsliðinu. Ég er mjög stoltur og ánægður að vera hérna.“
„Arnar hringdi í mig þegar ég var í klippingu, ég missti af símtalinu og hringdi til baka og hann sagði mér þetta. Það var ekki leiðinlegt móment.“
Gísli er leikmaður Lech Poznan í Póllandi, en hann gekk til liðs við pólska félagið í upphafi árs.
„Ég er mjög sáttur í Póllandi. Pólland sem land kom mér mikið á óvart, gaman að búa þarna. Svo er búið að ganga vel í liðinu, þannig að ég er mjög sáttur.“
Viðtalið við Gísla má sjá í heild sinni í spilaranum hér að ofan.
Athugasemdir