Miðjumaðurinn Conor Gallagher bar fyrirliðaband Chelsea í 0-2 sigri gegn Fulham í dag og var að rifna úr stolti að leikslokum.
Gallagher er 23 ára gamall og uppalinn hjá Chelsea en hann er samningsbundinn félaginu til 2025 og óviss um hvort hann ætli að framlengja samninginn, þrátt fyrir vilja úr herbúðum Chelsea.
„Það var frábært að bera fyrirliðabandið en það mikilvægasta var að ná í þrjú stig. Þetta var fín frammistaða hjá okkur, við getum gert betur en við gerðum nóg til að sækja dýrmæt stig. Sjálfstraustið er að aukast, við erum búnir að vinna tvo leiki í röð og getum vonandi haldið þessu áfram," sagði Gallagher.
„Ég fylltist stolti þegar ég mætti á völlinn með bandið í dag, þetta var gríðarlega stór stund fyrir mig. Chelsea er uppeldisfélagið mitt, félagið sem ég hef fylgst með og haldið með alla mína ævi. Það er stórkostleg tilfinning að bera fyrirliðabandið."
Gallagher er ekki nema 23 ára gamall en er þrátt fyrir það einn af reynslumeiri leikmönnum í ungu liði Chelsea.
„Þetta er mjög ungur leikmannahópur og ég er með meiri reynslu úr ensku úrvalsdeildinni heldur en flestir hérna. Ég tek þessu verkefni mjög alvarlega og hef reynt að vera alvarlegri og agaðari en áður bæði innan og utan vallar."
Athugasemdir