Hermann Hreiðarsson hætti í síðustu viku sem þjálfari ÍBV eftir að hafa komið liðinu aftur upp í Bestu deildina. Hann er fluttur ásamt fjölskyldu sinni og sá sér ekki fært að vera áfram í starfinu.
Eyjamenn verða því með nýjan mann í brúnni í Bestu deildinni á næstu leiktíð.
Eyjamenn verða því með nýjan mann í brúnni í Bestu deildinni á næstu leiktíð.
Hér á síðunni var settur saman tíu manna listi í síðustu viku yfir mögulega þjálfara fyrir ÍBV og rætt var um þann lista í útvarpsþættinum Fótbolti.net.
„Maðurinn sem ég held að sé efstur á blaði - ef ég ætti að giska - er Sigurvin Ólafsson," sagði Elvar Geir Magnússon.
Sigurvin er uppalinn í Vestmannaeyjum og steig þar sín fyrstu skref í fótboltanum. Hann er með mikinn metnað sem þjálfari og hefur náð góðum árangri til þessa, sem aðalþjálfari hjá KV og Þrótti, og einnig sem aðstoðarþjálfari hjá KR og FH.
Aðrir kostir - sem voru ekki á listanum, voru einnig nefndir í þættinum. Einar Guðnason, fyrrum aðstoðarþjálfari Víkinga, var nefndur, sömuleiðis Ómar Ingi Guðmundsson, þjálfari HK, og Srdjan Tufegdzic, sem verður ólíklega áfram þjálfari Vals.
„Venni væri frábær kostur. Hann spilaði þarna og varð Íslandsmeistari þarna. Hann er að gera flotta hluti," sagði Tómas Þór Þórðarson. „Ef ég væri í stjórn ÍBV, þá myndi ég fara fyrst þangað."
Athugasemdir