Van Dijk vill framlengja - PSG og Juve vilja Salah - Man Utd vill Rabiot
   mán 02. nóvember 2015 10:15
Björn Már Ólafsson
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Suðræn sveifla á Ítalíu
Björn Már Ólafsson
Björn Már Ólafsson
 Nikola Kalinic hefur verið drjúgur fyrir Fiorentina.
Nikola Kalinic hefur verið drjúgur fyrir Fiorentina.
Mynd: Getty Images
Gervinho hefur fundið sig vel hjá Roma.
Gervinho hefur fundið sig vel hjá Roma.
Mynd: Getty Images
Gonzalo Higuain.
Gonzalo Higuain.
Mynd: Getty Images
Roberto Mancini, þjálfari Inter.
Roberto Mancini, þjálfari Inter.
Mynd: Getty Images
Í mörg ár hafa liðin á Norður-Ítalíu einokað Ítalíumeistaratitilinn, lo Scudetto. Margs kyns ástæður kunna að liggja að baki þeirri staðreynd en sennilega er sú fyrirferðamesta að Norður-Ítalía er efnahagsmiðstöð landsins þar sem meiri stöðugleiki ríkir heldur en í suðrænni héröðum. Svo mikill munur er á efnahagslegum styrk norðurs og suðurs í landinu að sérstakur stjórnmálaflokkur hefur sprottið upp með það að markmiði að aðskilja þessa tvo landshluta, flokkurinn Lega Nord.

Baráttan um titilinn hefur því oft orðið að einhvers konar risavöxnu nágrannaeinvígi, annað hvort Derby della Madonnina (nágrannaslagur Mílanó-liðanna) eða Derby d’Italia (slagurinn á mili Juventus og Inter Milan).

Fyrir einlæga aðdáendur ítalskrar knattspyrnu, og þá sér í lagi þá sem muna tímana þegar Fiorentina, Roma, Lazio og Napoli voru fyrirferðameiri í toppbaráttunni, hefur yfirstandandi tímabil verið ein risavaxin gleðifrétt. Staðan eftir 11 umferðir er nefnilega þannig að Fiorentina og Inter tróna á toppi deildarinnar, rétt á undan Roma og Napoli.

Sveitaliðið Sassuolo er í fimmta sæti og Lazio í því sjötta. AC Milan er í áttunda sæti og gamla daman í Juventus er í 10. sæti.

Roma hefur vissulega verið í hálfgerðri toppbaráttu undanfarin ár, ef toppbaráttu mætti kalla að eltast við ósigrandi lið Juventus. Fyrir tímabilið styrkti Roma sig mikið í sóknarleik sínum á meðan vörnin var stærra spurningamerki. Það hefur sýnt sig í leik liðsins þar sem liðið hefur skorað langflest mörk þrátt fyrir að Dzeko hafi aðeins skorað eitt mark. Þegar meira að segja Gervinho er farinn að klára færi í ásættanlegu magni þá bendir það til þess að sóknarleikurinn sé á réttri braut. En að sama skapi hefur liðið fengið á sig mun fleiri mörk en önnur lið í toppbaráttunni.

Fiorentina hefur komið mest á óvart það sem af er tímabils. Sumarið var stormasamt hjá félaginu frá Firenze. Þjálfarinn vinsæli Vincenzo Montella var látinn fara eftir trúnaðarbrest við stjórn félagsins og við þjálfarastarfinu tók Portúgalinn Paulo Sousa. Liðið hefur spilað feykiflottan bolta sem byggir á að halda boltanum innan liðsins. Nikola Kalinic hefur síðan skorað mörk eins og hann fái borgað fyrir það eftir að hann kom til félagsins frá tungubrjótnum Dnipro Dnipropetrovk. Kalinic fær að vísu borgað fyrir að skora, en greinarhöfundur þurfti bara að undirstrika mikilvægi hans.

Lið Napoli sýndi klærnar á tímabili í fyrra undir stjórn Rafael Benítez en það var að lokum varnarleikurinn sem varð akkilesarhæll þeirra. Í sumar tók Benitez svo við stjórnartaumunum í Real Madrid á meðan forsvarsmenn Napoli ákváðu að róa á nærtækari mið. Ítalski refurinn Maurizio Sarri var ráðinn eftir að hafa gert góða hluti með smáklúbbinn Empoli. Hann á að baki stjórnarferil í neðri deildum á Ítalíu sem spannar þrjár forsetatíðir Silvios Berlusconis. 17 smáklúbba þurfti Sarri að þjálfa áður en hann fékk tækifærið hjá stóru félagi. En undir stjórn hins sérvitra Sarris hefur liðið komist á mikið skrið. Varnarleikurinn mallar áreynslulaust eins og vel smurð gufuvél. Napoli hefur farið ránsferðir um héröð Ítalíu og stolið stigum af miklum móð undir dyggri stjórn Gonzalos Higuain sem líkt og hershöfðinginn og landsfaðirinn Giuseppe Garibaldi forðum daga fer fyrir sínum mönnum í orrustu eftir orrustu víða um Ítalíu. Kaupin á miðjumanninum Allan frá Udinese virðast einnig við fyrstu sýn geta orðið kaup ársins sé litið til framistöðu hans hingað til.

Roberto Mancini tók við liði Inter á síðasta tímabili og hefur hann svo sannarlega tekið til hendinni eftir komu sína. Í sumar bættust meðal annars þeir Felipe Melo, Stevan Jovetic, Ivan Perisic og Geoffrey Kondogbia við hópinn. Liðið hefur unnið fjölda 1-0 sigra á tímabilinu í jöfnum leikjum. Það er ágætis vísbending um seigluna og reynsluna sem býr í liðinu og gæti fleytt þeim langt í átt að meistaratitlinum.

En hvers vegna þessi breyting?

Eftir skandala og fjárhagsvandræði sem hrjáðu mörg af þessum suðrænu félögum á síðasta áratug virðast öll þessi félög aftur vera komin í talsvert jafnvægi. Með því að kaupa unga leikmenn og selja þá síðan dýru verði til útlanda hefur þeim tekist að tryggja stöðuga fjármögnun. Þá hafa einnig erlendir fjárfestar komið til aðstoðar, meðal annars Roma. Félögin eru hætt að keppast um dýrustu bitana alveg óháð verði og þekkja betur sín takmörk.

Þá hefur einnig lök fjárhagsstaða nokkurra af félögunum í norðri orðið til þess að jafna leikinn betur út. Hrakfarir Juventus eiga líka stóran þátt í velgengni hinna liðanna. Auðvitað er freistandi að spá því að Juventus muni komast á skrið þegar á líður. Það er þó ekkert sem bendir til þess að það muni gerast á næstunni.Það er að sjálfsögðu of snemmt að segja til um það hvort lo Scudetto muni enda á Norður- eða Suður-Ítalíu næsta vor en ef fram fer sem horfir gæti titillinn endað annars staðar en í Tórínó eða Mílanó í fyrsta skiptið frá því að Roma vann titilinn árið 2001.

Og það þrátt fyrir að aðeins sjö félög í deildinni koma frá héröðum sunnar en Emilia-Romagna.
Athugasemdir
banner
banner
banner