Franski miðvörðurinn Ibrahima Konate hefur sent stuðningsmönnum Liverpool skilaboð eftir 4-1 tapið gegn PSV í Meistaradeildinni í gær.
Allt Liverpool-liðið hefur verið afleitt í síðustu leikjum og Konate líklega verið sá slakasti á tímabilinu.
Eftir frábært síðasta tímabil hefur honum farið aftur, en varnarmaðurinn verður samningslaus eftir tímabilið og samkvæmt ensku miðlunum er hann í miðjum samningaviðræðum við Liverpool.
Real Madrid er sagt fylgjast náið með samningamálum Konate, en það kæmi ekkert svakalega á óvart ef félagið mun færa athygli sína á aðra varnarmenn eftir frammistöðu Konate undanfarna mánuði.
Konate er ósáttur með gengi liðsins en hann kallar eftir stuðningi frá stuðningsmönnum Liverpool í gegnum þessa krísu.
„Við verðum að taka þetta augnablik á kassann. Gagnrýni er hluti af fótboltanum og alltaf munum við berjast til að komast í gegnum storminn. Á augnablikum sem þessum skipta stuðningsmennirnir mestu máli. Þeir sem standa með okkur í gegnum það góða og slæma, þeir sem syngja fyrir okkur á erfiðustu augnablikunum! Ykkar rödd og stuðningur skipta okkur öllu máli. Við vitum að við þurfum að bæta okkur og munum halda áfram að berjast fyrir okkur. Alltaf!“ sagði Konate á Instagram.
Athugasemdir




