Oliver Glasner, stjóri Crystal Palace, segir að fremstu menn liðsins verði að fara laga færanýtinguna ef það ætlar sér stóra hluti á tímabilinu.
Palace tapaði fyrir Strasbourg, 2-1, í Sambandsdeildinni í kvöld, en Glasner var ósáttur við hvað leikmenn voru að klúðra mörgum dauðafærum.
Strasbourg kom til baka í seinni hálfleik og skoraði tvö mörk til að tryggja sigurinn sem var annað tap Palace í keppninni á þessari leiktíð.
„Við gátum skorað annað mark eftir að við komumst í 1-0. Við vorum í sömu stöðu gegn Brentford í úrvalsdeildinni. Við klúðruðum þar en náðum að halda hreinu og unnum því leikinn.“
„Strasbourg er með mjög góða og snögga leikmenn. Við vissum það og það er svo sem í lagi að fá á sig jöfnunarmark en síðan þegar við erum einir á móti opnum marki þá klúðrum við og síðan töpum við leiknum. Þetta er ein af ástæðunum fyrir því að við verðskulduðum að tapa í dag.“
„Þetta var annað tapið þar sem við klúðrum of mörgum færum. Gegn Larnaca klúðruðum við mörgum færum og það er svolítið saga leiksins. Við þurfum fleiri leikmenn sem mæta til leiks og skora. Það er ekki endalaust hægt að treysta á að við höldum hreinu því andstæðingurinn er líka að spila vel,“ sagði Glasner.
Athugasemdir



