Adam Örn Arnarson hefur gert tveggja ára samning við Fram.
Adam var í herbúðum Breiðabliks í sumar en lék aðeins fjóra leiki fyrir félagið. Hann var síðan lánaður í Leikni og lék 10 leiki með Breiðholtsfélaginu.
Adam er 27 ára hægri bakvörður og hefur mikla reynslu þar sem hann var átta ár í atvinnumennsku með NEC Nijmegen, Nordsjælland, Álasund, Tromsö og Gronik Zabrze.
Hann á 43 leiki fyrir yngri landslið Íslands og einn A-landsleik.
"Adam er mjög gæðamikill leikmaður og hefur litið inn á æfingar hjá okkur undanfarið, hann á flottan feril og hefur verið atvinnumaður lengst af á sínum ferli. Við bindum miklar vonir við Adam og kynnum hann með stolti" sagði Agnar Þór Hilmarsson formaður knattspyrnudeildar Fram við undirskriftina.
Athugasemdir