Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   sun 03. janúar 2021 10:00
Ívan Guðjón Baldursson
Fræðimenn frá Úrúgvæ: Negrito er jákvætt orð
Mynd: Getty Images
Úrúgvæski sóknarmaðurinn Edinson Cavani var dæmdur í þriggja leikja bann af enska knattspyrnusambandinu fyrir að nota orðið 'negrito' á Instagram.

Negrito kemur af orðinu negro sem þýðir svartur. Negrito er mikið notað sem gælunafn í Suður-Ameríku og þýðir 'lítill svartur maður'. Cavani var ekki að nota orðið í neikvæðri merkingu en ákvað þó að áfrýja ekki banninu til að setja sig ekki gegn baráttunni gegn kynþáttafordómum.

Samlandar hans eru hneykslaðir á ákvörðun úrvalsdeildarinnar og hafa fræðimenn frá Úrúgvæ komið Cavani til varnar. Þeir segja ákvörðun stjórnar úrvalsdeildarinnar byggjast á fáfræði.

Cavani þarf að borga 100 þúsund pund, eða 17,5 milljónir íslenskra króna, í sekt og sitja námskeið til að bæta hegðun sína í framtíðinni.

„Enska knattspyrnusambandið hefur gert alvarleg mistök í máli Cavani. Sambandið sýndi mikla fáfræði á spænska tungumálinu og suður-amerískri menningu þegar það tók ákvörðun í málinu," segir í yfirlýsingu frá úrúgvæsku fræðimönnunum. Þeir mynda samtök sem standa vörð um spænska tungumálið í Úrúgvæ.

„Það er ekki hægt að túlka þetta orð á neinn hátt annan en jákvæðan, sérstaklega í umræddu samhengi. Negrito getur ekki verið notað á slæman hátt, orðið sjálft er jákvætt."

Það hefur vakið athygli að Mark Bullingham er framkvæmdastjóri enska knattspyrnusambandsins. Hann er lögfræðingurinn sem varði Luis Suarez þegar hann fékk sekt og leikbann fyrir að kalla Patrice Evra 'negro' á sínum tíma.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner