Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   mán 03. maí 2021 13:00
Fótbolti.net
Spá þjálfara og fyrirliða í Lengjudeild kvenna: 4. sæti
Gróttu er spáð 4. sæti í Lengjudeildinni
Gróttu er spáð 4. sæti í Lengjudeildinni
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
Emelía Óskarsdóttir vakti athygli í fyrra, þá 14 ára. Það verður spennandi að fylgjast áfram með þessum unga leikmanni í sumar.
Emelía Óskarsdóttir vakti athygli í fyrra, þá 14 ára. Það verður spennandi að fylgjast áfram með þessum unga leikmanni í sumar.
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
Sigrún Ösp verður mikilvæg fyrir Gróttuliðið
Sigrún Ösp verður mikilvæg fyrir Gróttuliðið
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
Fótbolti.net kynnir liðin sem leika í Lengjudeildinni í sumar eitt af öðru eftir því hvar þeim er spáð. Við fengum alla fyrirliða og þjálfara í deildinni til að spá fyrir sumarið. Liðin fengu stig frá 1-9 en ekki var hægt að spá fyrir sínu eigin liði.

Spáin:
1.
2.
3.
4. Grótta
5. Haukar
6. Augnablik
7. Víkingur
8. HK
9. ÍA
10. Grindavík

Lokastaða í fyrra: 6. sæti í Lengjudeildinni

Þjálfarar: Magnús Örn Helgason og Pétur Rögnvaldsson. Magnús tók við liðinu haustið 2018 og Pétur tók til starfa sem aðstoðarþjálfari í ársbyrjun 2019. Í haust varð sú breyting gerð að báðir verða þeir aðalþjálfarar og stýra liðinu í sameiningu.

Styrkleikar: Liðið er vel þjálfað og skipulagt. Það er öflugt á miðsvæðinu og með sterka leikmenn fram á við. Það hefur verið stígandi í liðinu undanfarin ár og verður fróðlegt að sjá hvernig liðið heldur áfram að þróast.

Veikleikar: Varnarlína liðsins er stundum brothætt og breiddin ekki mikil.

Lykilmenn: Sigrún Ösp Aðalgeirsdóttir, Tinna Jónsdóttir og Maggie Smither.

Gaman að fylgjast með: Það verður mjög spennandi að fylgjast með hinum ungu og bráðefnilegu Emelíu Óskarsdóttur, Lilju Scheving Davíðsdóttur og Lilju Lív Margrétardóttur taka næstu skref.

Við heyrðum í Pétri þjálfara og fórum yfir spánna og fótboltasumarið sem er framundan:

Hvað finnst þér um að vera spáð 4. sætinu og kemur það á óvart?

„Já og nei. Við enduðum í 6. sæti í fyrra og erum klárlega reynslunni ríkari. Hópurinn hefur tekið litlum breytingum og vonandi getum við staðið undir spánni. Á hinn bóginn kemur spáin á óvart þar sem deildin lítur út fyrir að verða jafnari og sterkari en í fyrra og við höfum haft mjög hægt um okkur á leikmannamarkaðnum miðað við mörg önnur lið í deildinni.”

Hver eru markmið liðsins í sumar?

„Markmið Gróttu eru þau sömu og seinustu ár. Við viljum halda áfram að gera betur ár frá ári og sjá framfarir hjá liðinu og einstaklingunum. Við viljum gefa ungum stelpum tækifæri til að sýna sig og sanna. Gefa þeim traust til að spila á þessu „level-i“ fá að gera mistök og þroskast. Í Gróttu er metnaðarfullt yngri flokka starf og við stefnum að því að það séu uppaldar stelpur að spila stór hlutverk hjá okkur á hverjum tíma fyrir sig. Við erum líka heppin að hafa góðan kjarna leikmanna sem hafa spilað lengi með liðinu og eru ungu stelpunum fyrirmyndir í viðhorfi og vinnuframlagi. ”

„Útfrá þessum formerkjum stefnum við á að spila skemmtilegan og krefjandi fótbolta, og trúum því að það muni skila félaginu og leikmönnum árangri. ”


Hvernig hefur undirbúningstímabilið gengið?

„Seinasta árið hefur náttúrulega verið krefjandi fyrir alla íþróttahreyfinguna hérlendis. Stoppin hafa farið misvel í stelpurnar okkar og því höfum við glímt við töluverð meiðsli í vetur. Undirbúngstímabilið sjálft hefur samt sem áður verið nokkuð gott og við náð að gera það besta úr þessu. Það hefur verið til fyrirmyndar hvernig stelpurnar hafa æft útá velli og heima í stofu, þannig við þjálfararnir getum ekki kvartað yfir því. ”

Er liðið mikið breytt frá því í fyrra?

„Það eru einhverjar breytingar hjá okkur eins og eðlilegt er í þessu, en heilt yfir er hópurinn svipaður og í fyrra. Maggie er komin í markið hjá okkur eftir að Tinna Brá fór í Fylki en þar fyrir utan er kjarninn í liðinu nánast sá sami.”

Hvernig áttu von á að deildin spilist í sumar?

„Eins og ég sagði áðan býst ég við sterkri og jafnri deild. Maður hefur séð fáa leiki hjá liðinum þennan veturinn þannig svona spá er að mestu leyti byggð á tilfinningu og nöfnum á blaði. Liðin hafa verið dugleg að styrkja sig og mörg hver leitað meira út fyrir landsteinana en t.d. í fyrra. Félögin sem koma niður í deildina úr Pepsi verða líklega mjög sterk og sama má segja um Aftureldingu, miðað við þá leikmenn sem þar hafa komið inn. Hafandi sagt það held ég að ekkert sé fast í hendi í þessari Lengjudeild í ár. Það er því rosalega spennandi sumar framundan.”

Komnar:
Elma Karen Gunnarsdóttir frá FH á láni.
Karen Guðmundsdóttir frá Val (á láni)
Maggie Smither frá Mankato United
Nína Kolbrún Gylfadóttir frá ASA Fodbold

Farnar:
Mist Þormóðsdóttir í námi erlendis
Anja Ísis Brown í ÍR
Ásta Kristinsdóttir í KR (var á láni)
Emma Steinsen Jónsdóttir í Fylki (var á láni frá Val)
Guðrún Þóra Elfar í SR
Heiða Helgudóttir í ÍR
Sofia Elsie Nielsen hætt
Tinna Brá Magnúsdóttir í Fylki

Fyrstu leikir Gróttu:
6. maí Grótta - ÍA
12. maí FH - Grótta
21. maí Grótta - Grindavík
Athugasemdir
banner
banner