Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   þri 03. maí 2022 14:00
Hafliði Breiðfjörð
Tveir nýir landsliðsbúningar Íslands - Sérstakur EM búningur
Icelandair
Ísland verður áfram í Puma en kvennaliðið spilar í sérstökum EM búningum í Englandi.
Ísland verður áfram í Puma en kvennaliðið spilar í sérstökum EM búningum í Englandi.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Karlaliðið spilar líklega í nýjum búning í Ísrael í júní.
Karlaliðið spilar líklega í nýjum búning í Ísrael í júní.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ef Ísland þarf að spila í varabúningum á næstu mánuðum þá verður áfram notast við þessa hvítu.
Ef Ísland þarf að spila í varabúningum á næstu mánuðum þá verður áfram notast við þessa hvítu.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð

Puma mun kynna tvo nýja landsliðsbúninga Íslands á næstu vikum. Annars vegar er nýr búningur sem íslensku landsliðin spila í næstu tvö árin, og hinsvegar sérstakur EM búningur sem kvennalandsliðið spilar í á EM í Englandi í sumar.


KSÍ samdi við Puma í maí árið 2020 og kynnti í kjölfarið nýjan búning landsliðanna. Landslið spila jafnan í tvö ár í hverjum búning og Stefán Gunnarsson sviðsstjóri markaðssviðs KSÍ segir við Fótbolta.net að von sér á nýjum búning.

„Nýr heimabúningur íslensku landsliðanna verður kynntur í maí," sagði Stefán en almennt skipta félagslið um búninga árlega en landslið á tveggja ára fresti.

Karlalandsliðið mætir Ísrael í Þjóðadeildinni í byrjun júní og aðspurður segist Stefán gera ráð fyrir að þar verði spilað í nýja búningnum í fyrsta sinn en þó gæti verið að E-landsliðið frumsýni búninginn verði hann kominn í hús fyrr.

EM í Englandi hjá kvennalandsliðinu fer fram í júlí næstkomandi. Búið er að framleiða sérstaka búninga fyrir Evrópumótið.

„Stelpurnar munu spila í sérstaktri EM treyju á EM í sumar," segir Stefán. „Puma mun frumsýna sérstakar EM treyjur allra liða sem leika í Puma í byrjun júní," bætti hann við.

Hann staðfestir að báðar treyjurnar muni fara í sölu í sumar en EM treyjan verður þó í takmörkuðu upplagi. Þegar Ísland var í Prag í Tékklandi í síðasta mánuði mættu fulltrúar Puma þangað og mynduðu liðið í EM treyjunni.

„Þetta er áfram sami blái liturinn en með tilvísun í fortíðina. Stelpurnar voru mjög ánægðar með nýju treyjuna," sagði hann.

Nýja treyjan verður þó aðeins blá, og fari svo að íslensku landsliðin þurfi að spila í hvítu varabúningnum þá verður áfram notast við núverandi hvíta búning. En afhverju er það?

„Það er bæði útaf Covid sem hefur hægt á framleiðsluferli í heiminum og vegna þess að dagatalið í framleiðslunni hefur breyst þar sem Heimsmeistaramót karla verður haldið í nóvember og desember á þessu ári. Því verða nýjar varatreyjur ekki kynntar fyrr en í haust."

Framleiðsla á treyjum er unnin nokkuð langt fram í tímann og þannig er þegar búið að hanna treyju fyrir Heimsmeistaramótið í Ástralíu og Nýja Sjálandi 2023 sem Ísland mun spila í komist þær á mótið. Stefán segir KSÍ hafa samþykkt þá treyju í síðustu viku.

Íslensku stelpurnar eru eftirsóttar því stóru íþróttavörumerkin vilja gera skósamninga við þær.

„Stóru merkin, Nike, Puma og adidas hafa verið að berjast við að semja við íslenska leikmenn. Þannig voru tveir leikmenn að semja við Nike á dögunum og Puma hefur þegar samið við Söru Björk, Glódísi og Alexöndru ásamt eflaust fleiri leikmönnum liðsins sem verða þá nýttar í markaðsefni Puma," segir Stefán að lokum,


Athugasemdir
banner
banner