
Gary Martin var með fyrirliðabandið þegar hann sneri aftur til Vestmannaeyja í Lengjudeildinni á fimmtudag.
Hann skoraði beint úr aukaspyrnu þegar Selfoss tapaði 3-2 gegn ÍBV. Gary yfirgaf ÍBV rétt fyrir tímabil þegar leiðinlegt atvik kom upp í búningsklefa ÍBV.
Hann fagnaði marki sínu á fimmtudag með því að gera bumbu með höndunum. Því var bent að Daníel Geir Moritz, formanni knattspyrnuráðs ÍBV.
Rætt var um þetta atvik í útvarpsþættinum Fótbolta.net í dag.
„Gary Martin er mættur þarna aftur á Hásteinsvöll, til Vestmannaeyja. Það var hent fyrirliðabandinu á hann. Hann átti að vera stjarnan í leiknum og hann átti að mæta þarna í hefndarhug eftir brotthvarfið frá Eyjum. Þegar hann skoraði úr aukaspyrnu í þessum leik þá tók hann bumbufagn. Hann lék eftir bumbu og benti upp í stúkuna," sagði Elvar Geir Magnússon.
„Þessu var einfaldlega bent að eiganda ÍBV, formanni knattspyrnuráðs, Daníel Geir Moritz. Gary Martin er greinilega ekki ánægður með viðskilnaðinn við eigandann."
„Hann var að hæðast að vaxtarlagi Daníels í þessu tilfelli. Þetta er ekki vinsælt á árinu 2021," sagði Elvar.
„Nei, alls ekki. Þetta hefði ekki heldur átt að vera vinsælt árið 1991. Fyrir utan allt það kjánalega sem þetta er, fyrir utan barnaskapinn, langræknina og pirrandi, þá er þetta númer eitt, tvö og þrjú A-klassa frammistaða í að kveikja í brú. Það er númer eitt, tvö og þrjú sem þetta er," sagði Tómas Þór Þórðarson.
„Þetta er ljótt og leiðinlegt en ég held að hann (Daníel Geir) sofi alveg yfir þessu."
„Hann gerir það. Ég þekki Daníel, hann er vinur minn. Ef það er einhver sem hefur húmor fyrir sjálfum sér, þá er það hann. Hann hló bara að þessu," sagði Elvar Geir.
„Það var alltaf von á einhverju því hann fer ekki í góðu; það er kæra og vesen. Maður hefur heyrt að því - og þetta er birt án allrar ábyrgðar - að Gary hafi haldið góðu sambandi við einhverja af leikmönnum ÍBV. Honum leið vel þarna og það var gert vel við hann þarna, áður en þetta leiðinlega atvik kemur upp..." sagði Tómas.
„Þegar rykið fellur... það er skipt um stjórnir eins og nærbuxur í íslenskum fótbolta. Dyrnar voru held ég ekki lokaðar fyrir Gary Martin aftur til Eyja. Það er enginn ættbálkur eins fljótur að fyrirgefa mistök eins og Eyjamenn. En þarna, tók hann bensín og kveikjara og kveikti í brúnni."
Hægt er að hlusta á allan útvarpsþáttinn hér að neðan.
Athugasemdir