Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   sun 03. júlí 2022 06:00
Ívan Guðjón Baldursson
Reina vill fara til Villarreal - Fiorentina að kaupa Gollini
Mynd: Getty Images
Mynd: EPA

Pepe Reina varamarkvörður Lazio hefur beðið félagið um að leysa sig undan samningi svo hann geti skipt yfir til Villarreal í heimalandinu.


Reina verður 40 ára í ágúst og á eitt ár eftir af samningi sínum við Lazio. Hann spilaði 15 leiki í Serie A á síðustu leiktíð en missti sætið til Tomas Strakosha um veturinn. 

Unai Emery vill fá Reina til Villarreal því honum finnst mikilvægt að hafa sterka og reynslumikla karaktera í búningsklefanum.

Reina yrði aðeins varamarkvörður hjá Villarreal en á ferlinum hefur hann leikið fyrir félög á borð við Liverpool, FC Bayern og Barcelona en hann var aðalmarkvörður Villarreal í þrjú ár frá 2002 til 2005.

Þá er Fiorentina að kaupa Pierluigi Gollini af Atalanta eftir eins árs lánssamning hjá Tottenham.

Gollini var varamarkvörður fyrir Hugo Lloris á lánstímanum og spilaði tíu leiki í heildina. Gollini varði mark Tottenham í Sambandsdeildinni og fékk 11 mörk á sig í 6 leikjum er Tottenham mistókst að komast upp úr riðlinum.

Gollini er 27 ára gamall og greinir Gianluca Di Marzio frá því að Fiorentina hafi komist að samkomulagi við Atalanta um kaupverð - 8,5 milljónir evra.

Gollini var aðalmarkvörður Atalanta í rúmlega tvö ár en núna er Argentínumaðurinn Juan Musso búinn að taka við stöðunni. Hjá Fiorentina mun Gollini berjast við Pietro Terracciano og Bartłomiej Drągowski um byrjunarliðssæti.


Athugasemdir
banner
banner
banner