Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   mið 03. ágúst 2022 14:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Spáin fyrir enska - 6. sæti - „Með besta bakvarðapar deildarinnar"
Chelsea er spáð sjötta sæti.
Chelsea er spáð sjötta sæti.
Mynd: EPA
Thomas Tuchel er stjórinn.
Thomas Tuchel er stjórinn.
Mynd: EPA
Mason Mount er öflugur leikmaður.
Mason Mount er öflugur leikmaður.
Mynd: Getty Images
Miðvörðurinn Kalidou Koulibaly var keyptur frá Napoli.
Miðvörðurinn Kalidou Koulibaly var keyptur frá Napoli.
Mynd: Getty Images
Stefán Marteinn Ólafsson er stuðningsmaður Chelsea.
Stefán Marteinn Ólafsson er stuðningsmaður Chelsea.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Eiður Smári er fyrrum leikmaður Chelsea.
Eiður Smári er fyrrum leikmaður Chelsea.
Mynd: Getty Images
Reece James.
Reece James.
Mynd: Getty Images
Sterling í leik á undirbúningstímabilinu.
Sterling í leik á undirbúningstímabilinu.
Mynd: Getty Images
Hvar endar Chelsea á þessari leiktíð?
Hvar endar Chelsea á þessari leiktíð?
Mynd: Getty Images
Enska úrvalsdeildin, sem er í miklu uppáhaldi hjá flestum fótboltaunnendum á Íslandi, hefst um næstu helgi. Fyrsti leikur er á föstudaginn.

Líkt og síðustu ár, þá munum við kynna liðin í deildinni eftir því hvar þau enda í sérstakri spá fréttamanna Fótbolta.net. Við heyrum líka í stuðningsfólki hvers lið og tökum púlsinn fyrir tímabilið sem er framundan.

Þá erum við komin í topp sex, en í sjötta sæti er Chelsea.

Um Chelsea: Eftir að hafa landað Evrópumeistaratitlinum 2021 þá var frekar dauft yfir Chelsea lengst af á síðustu leiktíð. Liðið var í engum hasar og endaði að lokum nokkuð þægilega í þriðja sæti. Það hafa orðið breytingar hjá Chelsea; Roman Abramovich er farinn og inn er kominn hinn bandaríski Todd Boehly. Félagið hefur haldið áfram á leikmannamarkaðnum og eru öflugir leikmenn komnir inn.

En það eru spurningar. Hver á að skora mörkin til þess að færa liðið nær Manchester City og Liverpool. Það er engin augljós kostur þar. Það gætu líka myndast vandræði á miðsvæðinu þar sem N'Golo Kante virðist ekki geta haldið sér heilum.

Chelsea hefur náð Meistaradeildarsæti síðustu fjögur tímabil en verður breyting þar á núna?

Komnir:
Raheem Sterling frá Manchester City - 50 milljónir punda
Kalidou Koulibaly frá Napoli - 33,8 milljónir punda
Carney Chukwuemeka frá Aston Villa - 20 milljónir punda
Gabriel Slonina frá Chicago Fire - 8,3 milljónir punda
Conor Gallagher frá Crystal Palace - var á láni
Omari Hutchinson frá Arsenal - óuppgefið kaupverð

Farnir:
Tino Anjorin til Huddersfield - á láni
Ian Maatsen til Burnley - á láni
Nathan Baxter til Hull - á láni
Andreas Christensen til Barcelona - frítt
Romelu Lukaku til Inter - á láni
Antonio Rüdiger til Real Madrid - frítt
Jake Clarke-Salter til QPR - frítt
Saúl Ñíguez til Atletico Madrid - var á láni
Danny Drinkwater fékk ekki nýjan samning
Charly Musonda fékk ekki nýjan samning

Lykilmenn: N'Golo Kanté, Mason Mount og Raheem Sterling verða í lykilhlutverki á þessari leiktíð. Það er mjög mikilvægt að Kante verði heill og nái sér á strik því hann átti frekar erfitt uppdráttar á síðasta tímabili. Framar á vellinum verða Mount og Sterling að vera drjúgir fyrir liðið og það verður að treysta á þá - kannski ásamt Kai Havertz - til að skora mörkin.




Gudjohnsen kynslóðin
Stefán Marteinn Ólafsson, fréttaritari hér á Fótbolta.net, er mikill stuðningsmaður Chelsea. Við fengum hann til að svara nokkrum spurningum.

Ég byrjaði að halda með Chelsea af því að... 16.desember 2001 fór fram leikur Chelsea - Liverpool á Stamford Bridge. Þetta er fyrsti leikurinn sem ég man eftir að hafa horft á og var ég með stjörnur í augunum að þarna var Íslendingur að pakka saman Liverpool. Eiður Smári Guðjohnsen lagði upp mark fyrir Jimmy Floyd Hasselbaink man ég og skoraði svo fjórða og síðasta mark leiksins. Það var nóg fyrir mig að ég fór að horfa alltaf spenntur á Chelsea leiki svo ég flokkast líklega undir Gudjohnsen kynslóðina.

Hvernig fannst þér síðasta tímabil og hvernig líst þér á tímabilið sem framundan er? Síðasta tímabil byrjaði mjög vel og kannski margir sem gleyma því að Chelsea var í byrjun desember á toppi deildarinnar. Ég er sannfærður um það að við hefðum tekið þátt í titilbaráttunni til enda ef við hefðum ekki misst besta bakvarðarteymi deildarinnar í meiðsli.

Það er svo ekki hægt að horfa framhjá skítnum sem fór í viftuna við þessa innrás Rússa. Allt í frost og ekkert mátti lengi hjá Chelsea. Við misstum menn eins og Rudiger þar sem við máttum ekki setjast að samningaborðinu með þeim. Vorum lengi vel með í öllum keppnum og að mínu mati fór allur vindur úr mínum mönnum við það að falla svekkjandi úr leik í átta-liða úrslitum gegn Real Madrid í Meistaradeildinni. Við töpuðum tveimur úrslitaleikjum gegn Liverpool í bikarkeppnum sem var leiðinlegt en fórum heim með Ofurbikar Evrópu og heimsmeistaratitil félagsliða úr síðasta tímabili sem lokaði hringnum fyrir Roman. Með þessum titlum yfirgefur hann félagið hafandi unnið allt galleríið.

Tímabilið framundan er virkilega spennandi og ekki sofa á þessu Chelsea liði. Erum að fara inn í tímabilið sem algjörir 'underdogs' miðað við spekinga en þetta verður ekki titlalaust í ár, því get ég lofað.

Hefur þú farið út til Englands að sjá þitt lið spila? Ef svo er, hvernig var það? Ég hef farið tvisvar á Stamford Bridge. Ég fór á fyrsta heimaleik Frank Lampard við stýrið gegn Leicester 2019 og sá fyrsta deildarmark Mason Mount fyrir félagið í leik sem endaði 1-1. Ég fór svo á síðasta tímabili á leikinn gegn Leeds þar sem við sóttum torsóttan sigur, 3-2, þar sem Jorginho tryggði sigur úr víti á 94. mínútu eftir VAR móment. Það var sturlað.

Uppáhalds leikmaðurinn í liðinu í dag? Reece James er minn maður. Það er 'proper generational talent' en fast á eftir fylgja Mason Mount og Mateo Kovacic.

Leikmaður sem þú myndir vilja losna við? Ef það er eitthvað sem þetta blessaða lið á þá er það svo kallað 'Deadwood'. Veit varla hvar skal byrja? Ross Barkley, Malang Sarr, Emerson Palmieri, Michy Batshuayi, Baba Rahman og svo eigum við Bakayoko og Romelu Lukaku því miður ennþá.

Leikmaður í liðinu sem fólk á að fylgjast sérstaklega með í vetur? Það eru fullt af pulsum sem draga Mason Mount og Reece James í efa en fylgist bara með þeim. Einnig erum við með besta bakvarðarpar deildarinnar í Chilwell og Reece James sem er unun að fylgjast með.

Ef ég mætti velja einn leikmann úr öðru liði í ensku úrvalsdeildinni myndi ég velja… Þegar stórt er spurt. Þetta er erfitt val á milli markaskorara eða varnarmanns. Það væri gaman að eiga Mo Salah eða Erling Haaland til að koma í veg fyrir að vítin hans Jorginho verði markahæst og sömuleiðis væri geðveikt að eiga eitt stykki Van Dijk í vörninni með Koulibaly og Thiago Silva.

Ertu ánægður með knattspyrnustjórann? Um götur London er sungið 'We got super Tommy Tuchel' og það er hverju orði sannara. Gæti ekki verið ánægðari með okkar mann. Við fengum hann bara.

Hver á að sjá um að skora mörkin? Hefði Lukaku átt að fá eitt tímabil í viðbót? Kai Havertz fær lyklana í vetur virðist vera svo vonandi kemur alvöru breakout season frá honum en svo er ég líka spenntur að sjá hvað Raheem 'The Dream' Sterling kemur með að borðinu.

Hvað Lukaku varðar þá bera fæst orð minnstu ábyrgð og er það eitthvað sem Lukaku hefði mátt tileinka sér síðasta tímabil… Tala minna, skora meira en ekki öfugt. Megi hann vera sem lengst í Inter.

Í hvaða sæti mun Chelsea enda á tímabilinu? Við verðum Englandsmeistarar og eina leiðin til þess er að enda í 1. sæti.




Hér fyrir neðan má svo sjá hvernig spá fréttafólks Fótbolta.net lítur út.

Þau sem spáðu: Alexandra Bía Sumarliðadóttir, Aksentije Milisic, Arnar Laufdal Arnarsson, Brynjar Ingi Erluson, Elvar Geir Magnússon, Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson, Jóhann Þór Hólmgrímsson, Ívan Guðjón Baldursson, Sverrir Örn Einarsson, Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke.

Liðin fengu eitt stig og upp í 20 eftir það hvar hver og einn spáði þeim. Liðið í síðasta sæti fékk eitt stig, liðið í 19. sæti tvö stig og koll af kolli. Stigin í spánni tengjast á engan hátt stigafjölda liðanna í deildinni.
.

Spáin:
1.
2.
3.
4.
5.
6. Chelsea, 160 stig
7. West Ham, 133 stig
8. Leicester, 123 stig
9. Newcastle, 115 stig
10. Aston Villa, 99 stig
11. Wolves, 96 stig
12. Brighton, 94 stig
13. Crystal Palace, 90 stig
14. Everton, 61 stig
15. Southampton, 55 stig
16. Leeds, 53 stig
17. Fulham, 43 stig
18. Brentford, 42 stig
19. Nottingham Forest, 35 stig
20. Bournemouth, 11 stig
Enski boltinn - Chelsea aldrei neðar en í þriðja sæti
Athugasemdir
banner
banner
banner