„Okkur líður öllum mjög vel, þetta var mikilvægur sigur og komin tími á að halda markinu sínu hreinu. Mér fannst við við vinna þetta verðskuldað, smá bras á okkur fyrsta korterið kannski en síðan unnum við okkur vel inn í leikinn. Það var frábært að fá þetta mark í lok fyrri hálfleiks og fara inn í hálfleikinn með jákvæða hluti á bakinu." voru fyrstu viðbrögð Helga Sigurðssonar aðstoðarþjálfara Vals eftir sigurinn á FH í kvöld en Ólafur Jóhannesson þjálfari Vals gaf ekki kost á sér eftir leik á Hlíðarenda í kvöld.
Lestu um leikinn: Valur 2 - 0 FH
„Við vorum sterkari aðilinn, þeir settu smá pressu á okkur í lokin en mér fannst leikurinn aldrei vera í neinni hættu og menn voru að vinna fyrir hvorn annan og það var það sem skóp þennan sigur."
Helgi Sigurðsson talaði um að það hafi verið mikilvægt að halda hreinu og Frederik Schram átti sína vörslur í leiknum og átti sinn þátt í því að Valur hélt hreinu í kvöld.
„Hann er búin að standa sig mjög vel síðan hann kom til okkar og var frábær í dag. Allt liðið var að standa sig vel, það voru allir að vinna sem ein liðsheild og þegar við gerum það þá erum við frábært lið og fullt af góðum fótboltamönnum."
Ólafur Jóhannesson tók við af Heimi Guðjónssyni í lok Júlí og hefur liðið sótt 4 stig af 6 mögulegum og var Helgi spurður hvað hafi breyst í spilamennsku liðsins.
„Það hefur kannski ekkert breyst nema bara það að við erum reyna halda í boltann. Ég held að leikmennirnir hafi fyrst og fremst tekið sig saman og viljað gera hlutina betur og við höfum bara stutt á bakið á þeim og það er það sem er að skapa þetta."
Sjáðu allt viðtalið í spilaranum hér að ofan.