Nkunku til Barcelona? - Man Utd hefur áhuga á Osimhen - Díaz ánægður á Anfield
   fim 03. september 2020 15:25
Elvar Geir Magnússon
Viðtal
Ísak telur sig mjög nálægt A-landsliðinu - „Er fyrst og fremst þakklátur"
Ísak á æfingu með U21 landsliðinu í dag.
Ísak á æfingu með U21 landsliðinu í dag.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ísak Bergmann Jóhannesson er einn okkar allra efnilegasti fótboltamamaður en þessi sautján ára strákur hefur fengið gríðarlega mikið umtal fyrir frammistöðu sína hjá Norrköping í Svíþjóð.

Hann er nú staddur heima á Íslandi við æfingar með U21 landsliðinu. Margir hefðu viljað sjá hann í sjálfum A-landsliðshópnum í ljósi þess að lykilmenn vantar þar.

Erik Hamren fór fögrum orðum um Ísak á fréttamannafundi og sjálfur telur leikmaðurinn að hann sé mjög nálægt því markmiði sínu að komast inn fyrir dyr A-landsliðsins.

„Já eg tel mig vera nálægt en fyrst og fremst er ég þakklátur fyrir það að vera í U21-landsliðinu. Ég vil hjálpa þeim eins mikið og ég get í þessum verkefnum sem eru framundan og vonandi getum við náð markmiðum okkar að komast upp úr þessum riðli," segir Ísak við Fótbolta.net.

Hef trú á að við séum með betri leikmenn
Vegna Covid-ástandsins eru leikmenn U21-landsliðsins fastir á hótelinu sínu milli æfinga.

„Það er skrítið að vera læstur inni á hóteli hérna á Íslandi. Ég hef aldrei upplifað það áður að vera ekkert á Akranesi þegar ég er hérna heima. Við höfum náð að undirbúa okkur vel og teljum okkur klára í leikinn á morgun."

U21 landsliðið er að fara að leika gegn Svíum á morgun en þeir sænsku unnu stórsigur þegar liðin áttust við í fyrra.

„Við höfum skoðað þann leik vel og ætlum klárlega að bæta upp fyrir þann leik. Við ætlum að hefna gegn Svíum á morgun og trúum því að ef við spilum okkar leik, og allir vinna fyrir liðið, þá getum við unnið þetta lið," segir Ísak sem veit mikið um mótherjana.

„Það er einn leikmaður sem er í sænska U21-liðinu sem er með mér í Norrköping, Pontus Almqvist. Hann hefur staðið sig mjög vel og hefur skorað fimm mörk í Allsvenskan. Svo eru nokkrir þarna sem ég hef spilað við og þekki til. Þetta er flott lið og með góða leikmenn inni á milli en ég hef trú á því að við höfum betri leikmenn,"

Gaman að vera treyst fyrir svona mörgum stöðum
Ísak hefur spilað sautján af átján deildarleikjum Norrköping í sænsku úrvalsdeildinni á þessu tímabili og hefur víða komið við á vellinum!

„Ég hef verið á vinstri kanti, hægri kanti, fremri miðju, aftari miðju og svo var ég einn leik meira að segja í vinstri bakverði. Það er gaman að þjálfarinn treysti mér fyrir mörgum stöðum. Það er kostur finnst mér að geta leyst svona margar stöður og að finna traust þjálfarans," segir Ísak sem er í grunninn miðjumaður og ætlar að festa sig í sessi þar með tímanum.

„Það er náttúrulega markmiðið og hefur verið. Ég geri mér alveg grein fyrir því að sautján ára strákur er ekki að fara að byrja alla leiki á miðjunni í toppliði í sænsku úrvalsdeildinni. Ég er miðjumaður fyrst og fremst og vill spila þar og verð klár þegar kallið kemur."

„Markmiðið fyrir tímabilið var að komast í byrjunarliðið sem fyrst. Ég gerði það í fjórðu eða fimmtu umferð. Það komu upp meiðsli og ég fékk tækifærið og átti góðan leik. Ég ætlaði að brjóta mér leið inn í liðið og það tókst. Nú er markmiðið að halda mér í liðinu. Það hefur ekki gengið alveg nægilega vel upp á síðkastið hjá liðinu en markmið mitt er að vera fastamaður í þessu liði," segir Ísak en seinni hluti viðtalsins birtist seinna í dag.
Athugasemdir
banner
banner