Amorim bíður eftir leyfi - Nkunku og fleiri orðaðir við Man Utd - Endo eftirsóttur
   þri 03. október 2023 16:00
Innkastið
Hægt að slá því föstu að Andri Rúnar fer í Vestra
Andri Rúnar fagnar sæti Vestra í efstu deild.
Andri Rúnar fagnar sæti Vestra í efstu deild.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Bolvíkingurinn Andri Rúnar Bjarnason var í stúkunni á Laugardalsvelli og fagnaði því þegar hans lið, Vestri, vann Aftureldingu og tryggði sér sæti í Bestu deildinni.

Þessi öflugi sóknarmaður verður 33 ára í næsta mánuði en hann hefur skorað fjögur mörk fyrir Val í Bestu deildinni í sumar.

Í Innkastinu var talað um að það væri næsta víst að Andri myndi leika með Vestra í efstu deild á næsta tímabili.

„Ég held að það sé hægt að slá því föstu. Hann er ekki að fara að spila á móti Vestra í efstu deild. Sammi er að fara að ná í hann og það verða einhverjir fleiri," sagði Elvar Geir í Innkastinu.

Samúel Samúelsson, oft kallaður eigandi Vestra, var í viðtali við Fótbolta.net í gær og var spurður út í það hvort Andri væri á leiðinni.

„Það kæmi mér mjög á óvart ef við myndum allavega ekki setjast niður saman. Hann er samningsbundinn Val og ég þyrfti þá að ræða við Valsarana. Við gefum þessu kannski vikuna og ég lauma kannski á hann eins og einu skilaboði, hvort að þetta sé eitthvað sem honum líst á," sagði Sammi en Vestri hugsar stórt og ætlar að styrkja sig. „Við ætlum ekki að fara upp í Bestu deildina bara til að njóta þess að vera þar. Að sjálfsögðu ætlum við að njóta en við ætlum að gera okkur gildandi þar."

Andri Rúnar lék síðast með BÍ/Bolungarvík 2014. Tímabilið 2017 hjá Grindavík skoraði hann nítján mörk í 22 leikjum, mesti markafjöldi sem hefur náðst í efstu deild á einu tímabili. Í atvinnumennsku lék hann með Helsingborg, Kaiserslautern og Esbjerg.
Innkastið - Vesturbæjarvonir og Vestradraumar
Athugasemdir
banner