Efasemdir um Konate - Liverpool með Lacroix á blaði - Man Utd vill Úkraínumann
   fös 03. október 2025 19:53
Ívan Guðjón Baldursson
Besta deild kvenna: Breiðablik varði titilinn
Kvenaboltinn
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Breiðablik 3 - 2 Víkingur R.
0-1 Linda Líf Boama ('6)
1-1 Birta Georgsdóttir ('29)
1-2 Kristín Erla Ó Johnson ('31)
2-2 Birta Georgsdóttir ('34)
3-2 Berglind Björg Þorvaldsdóttir ('51)

Lestu um leikinn: Breiðablik 3 -  2 Víkingur R.

Breiðablik tók á móti Víkingi R. í Bestu deild kvenna í kvöld og gátu Blikar tryggt sér Íslandsmeistaratitilinn með sigri eftir að hafa tapað tveimur síðustu deildarleikjum í röð.

Gestirnir úr Fossvoginum byrjuðu betur og tóku forystuna þegar Linda Líf Boama slapp í gegn og skoraði auðvelt mark eftir frábæra stungusendingu frá Bergþóru Sól Ásmundsdóttur.

Það var mikið líf í leiknum og björguðu Blikar á línu skömmu eftir opnunarmarkið, áður en Birta Georgsdóttir var næstum búin að skora jöfnunarmark.

Birta var afar lífleg í kvöld og jafnaði hún metin eftir mikinn sóknarþunga Blika. Hún kláraði skemmtilega með hælnum eftir góða fyrirgjöf frá Öglu Maríu Albertsdóttur.

Víkingar tóku þó forystuna aftur tveimur mínútum síðar með flottu marki frá Kristínu Erlu. Hún fékk boltann við vítateigslínuna vinstra megin og skoraði með laglegu skoti.

Það liðu þó ekki fjórar mínútur þar til Birta var aftur búin að jafna metin í þessum ótrúlega fyrri hálfleik. Birta gerði vel að vera fyrst að átta sig eftir marktilraun frá Samantha Smith og fylgdi eftir með marki.

Blikastúlkur mættu grimmar til leiks í síðari hálfleikinn og settu Víking undir mikla pressu snemma sem skilaði marki. Berglind Björg Þorvaldsdóttir skoraði eftir frábæran undirbúning Andreu Rutar Bjarnadóttur, en boltinn fór tvívegis í slána áður en Berglind þrumaði honum yfir marklínuna.

Blikar komust nálægt því að bæta við forystuna en gestirnir voru líka hættulegir og klúðraði Ashley Clark fyrir opnu marki.

Það var áfram mikil spenna á lokamínútunum og í uppbótartímanum þar sem Víkingar björguðu á línu og komust svo nálægt því að jafna, en boltinn rataði ekki í netið. Lokatölur urðu því 3-2.

Breiðablik er þar með búið að tryggja sér Íslandsmeistaratitilinn annað árið í röð. Breiðablik og Valur hafa einokað titilinn síðan 2018.
Athugasemdir
banner
banner