
Það komu nokkrar íslenskar fótboltakonur við sögu í leikjum dagsins víðsvegar um heim, þar sem öllum leikjunum nema einum lauk með þægilegum sigrum Íslendingaliðanna.
Brenna Lovera skoraði tvennu er Brann rúllaði yfir Lyn í efstu deild í Noregi. Diljá Ýr Zomers lék allan leikinn og gaf stoðsendingu í 9-0 sigri.
Brann trónir á toppi deildarinnar með 59 stig eftir 22 umferðir, fjórum stigum meira heldur en Vålerenga þegar fimm umferðir eru eftir.
Sædís Rún Heiðarsdóttir og Arna Eiríksdóttir léku þá allan leikinn í sigri Vålerenga gegn Bodö/Glimt þar sem hin 37 ára gamla Elise Thorsnes fór á kostum. Hún skoraði þrennu og lagði eitt upp í 4-1 sigri.
Sara Björk Gunnarsdóttir var svo í byrjunarliði Al-Qadisiya í Sádi-Arabíu sem vann þægilegan fimm marka sigur gegn Neom SC í efstu deild. Sara og stöllur eiga 6 stig eftir 4 umferðir.
Að lokum spilaði Hafrún Rakel Halldórsdóttir síðustu mínúturnar í markalausu jafntefli hjá Bröndby gegn FC Nordsjælland í efstu deild í Danmörku.
Bröndby er í þriðja sæti deildarinnar með 13 stig eftir 8 umferðir, einu stigi meira en Nordsjælland.
Brann 9 - 0 Lyn
Bodö/Glimt 1 - 4 Valerenga
Neom SC 0 - 5 Al-Qadisiya
Bröndby 0 - 0 Nordsjælland
Athugasemdir