Efasemdir um Konate - Liverpool með Lacroix á blaði - Man Utd vill Úkraínumann
banner
   fös 03. október 2025 16:25
Kári Snorrason
Viðtal
Allt undir á Meistaravöllum - „Hvort ætlaru að sökkva á botninn eða rísa upp?“
Jökull Andrésson.
Jökull Andrésson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Fyrsti sigur Aftureldingar í þrjá mánuði kom gegn KA um síðustu helgi.
Fyrsti sigur Aftureldingar í þrjá mánuði kom gegn KA um síðustu helgi.
Mynd: Helgi Þór Gunnarsson
Flautað verður til leiks á Meistaravöllum 14:00 á morgun.
Flautað verður til leiks á Meistaravöllum 14:00 á morgun.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Eftir síðasta sigurleik höfum við og allir Mosfellingar hópast saman og við munum kýla á þetta“
„Eftir síðasta sigurleik höfum við og allir Mosfellingar hópast saman og við munum kýla á þetta“
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð

Augu margra beinast að Meistaravöllum á morgun þegar KR og Afturelding mætast í 25. umferð Bestu deildarinnar. Leikurinn hefst klukkan 14:00, en Afturelding, er nú í 11 en KR er í botnsæti deildarinnar og þurfa bæði lið á sigri að halda, því er ljóst að það verður mikið í húfi vestur í bæ á morgun.

Afturelding vann sinn fyrsta leik í um þrjá mánuði síðastliðna helgi er þeir unnu KA í Mosfellsbæ. Þrjár umferðir eru eftir af mótinu og línur  fara að skýrast eftir leik morgundagsins. Fótbolti.net ræddi við Jökul Andrésson, markvörð Aftureldingar, fyrir leikinn mikilvæga á Meistaravöllum á morgun. 


Stærsti leikur tímabilsins

„Hver einasti leikur í þessari úrslitakeppni er stærsti leikurinn á tímabilinu. Þessi KA sigur gerði mjög mikið fyrir okkur. Hefðum við ekki unnið hann værum við í töluvert verri stöðu en við erum núna í. En ég myndi segja að þetta væri stærsti leikurinn á tímabilinu til þessa.“  

„Þessi sigur gegn KA gefur okkur mikinn kraft, síðasti sigurleikur fyrir hann var 23. júní. Maður finnur það á liðinu hvernig þessi æfingavika og klefinn hefur verið, töluvert léttari en vanalega,“ segir Jökull.

Horfið þið á þennan leik á morgun sem úrslitaleik?

„Klisjusvarið er að við horfum á þennan leik eins og alla aðra leiki, en að sjálfsögðu vitum við það að það sé allt undir núna. Við viljum samt ekki fara inn í þennan leik og skíta í okkur. Okkur langar til að líða vel og gera það sem við gerum vel.“ 

„Rosalegt ef þeir myndu falla“ 

„Ég man síðast þegar við spiluðum á móti þeim þá voru þeir með mun betri varnarbolta en vanalega. Kannski vorum við bara lélegir að sækja í þeim leik. Ég býst alltaf við smá af því sama: Há lína, mikið spil, mikill kraftur og Aron Sig, hversu góður hann er ég átta mig ekki á því. Ég veit allavegana að þetta verður hörkuleikur, við vitum að bæði lið geti sigrað hvort annað en núna er þetta bara hver vill þetta meira. Ég held að liðið sem vinnur fleiri einvígi á morgun vinnur leikinn.“ 

KR er eflaust undir töluvert meiri pressu en þið Mosfellingar, kemur það að einhverju leyti Aftureldingu til góðs?

„Ég held að mesta pressan komi frá okkur sjálfum, það eru ekkert allir aðrir á Íslandi að hugsa að Afturelding þurfi að halda sér uppi í efstu deild. Aðalgæjarnir sem hugsa það erum við sjálfir. Að sjálfsögðu er KR stórveldi og það væri rosalegt ef þeir myndu falla. En við ætlum að nýta okkur það að það séu margir Mosfellingar að mæta og nýta orkuna frá þeim.“ 

Breska harkið

Fyrir þig sem ástríðufullan leikmann þá hlýtur svona mikil barátta að vera skemmtileg?

„Eftir síðustu ár með mín meiðsli og allt þannig fær maður að upplifa þetta allt 'non stop'. Þetta er eitthvað sem ég nýt í botn, gamla góða breska harkið, þetta er alvöru 'old school' hark. Hvort ætlaru að sökkva á botninn eða rísa upp. Ef ég þekki liðið mitt rétt þá munum við rísa upp.“ 

„Ég elska þetta, þetta er í fyrsta sinn sem ég fer í alvöru keppni og þar sem allt er á lífi. Núna er byrjuð að koma létt geðveiki í þetta. Fólk að spyrja mig hvort ég gæti græjað miða, eins og ég gæti græjað það ég borga bara miða sjálfur. Þetta er ótrúlega gaman, sérstaklega eftir síðasta sigurleik höfum við og allir Mosfellingar hópast saman og við munum kýla á þetta. Þegar við vinnum á morgun þá verður þetta ansi mikið fjör,“  segir Jökull að lokum.


Besta-deild karla - Neðri hluti
Lið L U J T Mörk mun Stig
1.    ÍBV 24 9 6 9 30 - 29 +1 33
2.    KA 24 9 5 10 35 - 44 -9 32
3.    ÍA 24 9 1 14 33 - 45 -12 28
4.    Vestri 24 8 3 13 23 - 37 -14 27
5.    Afturelding 24 6 7 11 33 - 42 -9 25
6.    KR 24 6 6 12 46 - 58 -12 24
Athugasemdir