Efasemdir um Konate - Liverpool með Lacroix á blaði - Man Utd vill Úkraínumann
   fös 03. október 2025 19:20
Ívan Guðjón Baldursson
Fann fyrir virðingarleysi og dónaskap hjá Man Utd
Mynd: EPA
Mynd: Real Betis
Brasilíski kantmaðurinn Antony ræddi um dvöl sína hjá Manchester United í viðtali við ESPN í Brasilíu og talaði meðal annars um virðingarleysi og dónaskap sem hann upplifði.

Antony fann aldrei taktinn í Manchester eftir að hafa verið keyptur úr röðum Ajax fyrir rúmlega 80 milljónir punda sumarið 2022 en hann var svo seldur til Real Betis í sumar fyrir talsvert lægri upphæð, eða rúmar 20 milljónir punda.

„Ég er ekki sú týpa af manneskju sem elskar að blanda sér í ágreiningsmál eða bendir á annað fólk þegar kemur að því að taka ábyrgð, en ég fann fyrir virðingarleysi og dónaskap hjá Manchester United," sagði Antony við ESPN.

„Þetta var komið á þann punkt að enginn bauð manni lengur góðan daginn eða góða kvöldið. En þetta er partur af fortíðinni, það sem skiptir máli er að núna er ég hjá Betis og mér líður vel."

Antony átti mjög erfiða kafla á dvöl sinni hjá Rauðu djöflunum en í heildina skoraði hann aðeins 12 mörk í 96 leikjum fyrir félagið.

„Það var margt sem hafði áhrif á dvöl mína hjá Manchester og ég þarf að taka minn part af ábyrgðinni. Það voru atvik utan vallar sem höfðu áhrif á frammistöðuna mína en ég efaðist aldrei um gæðin mín, ég veit hvers ég er megnugur. Það er ekki af ástæðulausu sem ég spilaði á HM og er aftur orðinn partur af brasilíska landsliðinu.

„Ég viðurkenni að ég stóð mig ekki nægilega vel en ég verð að taka það jákvæða úr þessu. Ég kynntist sjálfum mér betur, þetta var nauðsynlegt ferli fyrir mig til að þroskast sem leikmaður og manneskja."


Antony hefur áður sagt í viðtölum að hjá Man Utd týndi hann viljanum til að spila fótbolta, hann fann ekki lengur fyrir gleðinni sem hann fann svo aftur þegar hann flutti til Spánar. Hann ræddi meðal annars við TNT Sports um þunglyndið sem hann upplifði á dvöl sinni í Manchester.

Þegar hann talar um erfið atvik utan vallar er hann meðal annars að ræða um ásakanir frá fyrrum kærustu sem sagði Antony hafa lagt hendur á sig.

   02.09.2025 20:10
Antony grét er hann var kynntur hjá Betis

Athugasemdir
banner