Rene Meulensteen, fyrrum þjálfari hjá Manchester United, segir að Paul Pogba sé ekki í heimsklassa að neinu leyti.
Mikið hefur verið rætt og ritað um Pogba að undanförnu og hvort hann eigi heima í besta byrjunarliði Manchester United. Pogba fékk á sig vítaspyrnu í 1-0 tapinu gegn Arsenal um helgina en hann hefur legið undir gagnrýni í byrjun tímabils.
Pogba var keyptur fyrir 89 milljónir sumarið 2016 og er hann enn dýrasti leikmaður í sögu Man Utd. Heilt yfir hefur hann ekki staðist væntingar frá því hann kom til Man Utd.
„Þú getur haft alla hæfileika í heimunum, en þetta snýst um að leggja mikið á sig, og með því að leggja mikið á þig nærðu að sýna gæðin," sagði Meulensteen, sem starfaði lengi með Sir Alex Ferguson hjá Manchester United.
„Að mínu mati hefur hann ekki lagt nægilega mikið á sig. Ég sé það alltaf; hann gerir hlutina of hægt, það er eins og allt sér erfitt fyrir hann og hann er aldrei að flýta sér. Önnur lið nýta sér það."
„Hann er mjög hæfileikaríkur leikmaður. Það er alltaf verið að tala um hann, að hann sé í heimsklassa. Ég nota það orð sparlega því ég þekki leikmenn sem eru að spila núna og eru ekki að spila núna sem eiga skilið að vera kallaðir heimsklassa fótboltamenn. Paul á það ekki skilið að neinu leyti því hann hefur ekki staðist væntingar," sagði hinn hollenski Meulensteen við Stadium Astro og bætti hann við:
„Við eigum að búast við meiru frá honum, en hlutirnir munu bara ganga upp hjá honum ef hann leggur mikið á sig."
Athugasemdir