Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
banner
   fim 03. desember 2020 14:51
Magnús Már Einarsson
Kennir fréttamanni um og sakar um lygar
Kjartan Henry Finnbogason í leik með Vejle.
Kjartan Henry Finnbogason í leik með Vejle.
Mynd: Getty Images
Kjartan er núna kominn aftur til Horsens.
Kjartan er núna kominn aftur til Horsens.
Mynd: Getty Images
Kjartan Henry Finnbogason, framherji Horsens í Danmörku, hefur sakað Jon Pagh, sjónvarpsmann hjá TV3, um að eiga þátt í að hann var látinn fara frá Vejle.

Kjartan Henry yfirgaf herbúðir Vejle í haust og gekk til liðs við sitt gamla félag Horsens. Kjartan Henry skoraði sautján mörk í B-deildinni þegar Vejle komst í dönsku úrvalsdeildina í sumar og hann var einnig öflugur á undirbúningstímabilinu fyrir núverandi tímabil.

Þrátt fyrir það byrjaði hann á bekknum í fyrsta leik tímabilsins gegn AGF. Eftir þann leik fór Kjartan Henry í sjónvarpsviðtal.

„Við erum með eiganda hjá félaginu sem hefur keypt nokkra nýja leikmenn og þeir fá tækifæri til að sýna sig. Það er undir mér komið að sýna að ég get þetta ennþá. Við töpuðum í dag og þetta snýst ekki um mig," sagði Kjartan í viðtalinu eftir umræddan leik gegn AGF.

Tveimur vikum síðar tók Jon Pagh viðtal við Constantin Galca, þjálfara Vejle, og vísaði í viðtalið við Kjartan Henry. Þar sneri hann hressilega út úr orðum Kjartans.

„Einn af leikmönnum þínum sagði eftir leikinn gegn AGF að eigandinn vilji láta sína leikmenn sýna sig og þess vegna sé það hann (eigandinn) sem ákveði byrjunarliðið. Er það rétt? Blandar hann sér í þitt starf," sagði Jon í viðtali við Constantin þjálfara Vejle.

Kjartan Henry segir að þetta viðtal hafi orðið til þess að Constantin hafi ákveðið að láta sig fara.

„Ég var í áfalli eftir þetta. Tveimur vikum eftir leikinn gegn AGF halda þeir áfram með þetta og hann lýgur. Ég tel að það sé óábyrgt hjá fréttamanni að segja að ég hafi sagt eitthvað sem ég hef ekki sagt....Þetta hafði afleiðingar því daginn eftir mátti ég ekki æfa með liðinu. Síðan var ég rekinn af þjálfaranum því hann hélt að ég hefði sagt eitthvað sem ég sagði ekki," sagði Kjartan Henry um málið í dag.

Jon Pagh, sjónvarpsmaður TV 3, hefur svarað Kjartani og segir að hann beri enga ábyrgð á því að Vejle hafi ákveðið að láta hann fara.
Athugasemdir
banner
banner
banner