,,Ég er ekkert sáttur en við fengum ekki á okkur mark og það er mjög mikilvægt," sagði Rúnar Kristinsson þjálfari KR eftir markalaust jafntefli liðsins gegn Glentoran í Evrópudeildinni í kvöld.
Sjö leikmenn Glentoran fengu gula spjaldið í kvöld en leikmenn liðsins töfðu mikið í leiknum.
,,Þeir voru að tefja mikið og dómarinn leyfði þeim að komast upp með það. Þeir voru að henda sér í jörðina og fiska aukaspyrnur sem er ólíkt Bretum. Þeir voru bara leiðinlegir. Það er eitthvað sem lið taka upp á þegar þeir telja sig ekki eiga annars kost völ."
,,Þeir eru nýbyrjaðir að æfa eftir sumarfrí og þeir voru orðnir mjög þreyttir þegar leið á leikinn og þeir lágu með krampa í grasinu. Þetta var bara aðferð hjá þeim til að drepa leikinn og reyna að fá sem mest út úr honum."
Síðari leikurinn fer fram í Norður-Írlandi eftir viku og Rúnar er bjartsýnn fyrir hann.
,,Þeir koma væntanlega framar og reyna að skora mörk þannig að það verður öðruvísi leikur."
,,Við þurfum að hafa trú á okkur sjálfum, þora að spila okkar fótbolta og fara á þá. Það verður hörkugaman að fara út og eiga þetta verkefni fyrir höndum að klára þá á útivelli."
Hér að ofan má sjá viðtalið í heild sinni.
Athugasemdir