Pickford klárar ferilinn hjá Everton - Arsenal gæti fengið Kolo Muani - Van Nistelrooy leitar til Man Utd
   fös 04. ágúst 2023 23:55
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
Súrrealísk stund á Írlandi - „Hefðum allir fengið sveppasýkingu ef við hefðum farið í sturtu þarna"
Mynd úr leiknum í gær: 'Við Dusan vorum mjög þægilegir, þó að þeir hafi verið með alvöru skepnu; alvöru nagg þarna fram á við sem við þurftum að eiga við.'
Mynd úr leiknum í gær: 'Við Dusan vorum mjög þægilegir, þó að þeir hafi verið með alvöru skepnu; alvöru nagg þarna fram á við sem við þurftum að eiga við.'
Mynd: Getty Images
Ívar missti af fyrri leiknum gegn Dundalk vegna axlarmeiðsla.
Ívar missti af fyrri leiknum gegn Dundalk vegna axlarmeiðsla.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Svo súrrealískt að maður getur eiginlega ekki lýst því
Svo súrrealískt að maður getur eiginlega ekki lýst því
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Svo var gervigrasið alveg... þú gast ekki reiknað hvernig boltinn skoppaði til að bjarga lífi þínu.
Svo var gervigrasið alveg... þú gast ekki reiknað hvernig boltinn skoppaði til að bjarga lífi þínu.
Mynd: Getty Images
Ég sé eiginlega mest eftir því, var eiginlega bara einn á móti markmanni og hefði bara átt að skora úr þessu. Það er fínt að Grímsi fái markið. Það er bara flott
Ég sé eiginlega mest eftir því, var eiginlega bara einn á móti markmanni og hefði bara átt að skora úr þessu. Það er fínt að Grímsi fái markið. Það er bara flott
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Við vissum að þetta yrði mikið af krossum og mikið af seinni boltum inn í teig sem við þyrftum að vinna.
Við vissum að þetta yrði mikið af krossum og mikið af seinni boltum inn í teig sem við þyrftum að vinna.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Nei nei nei, það hvarflaði ekki að mér í eina sekúndu
Nei nei nei, það hvarflaði ekki að mér í eina sekúndu
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Að gera þetta með þessum strákum er bara geðveikt
Að gera þetta með þessum strákum er bara geðveikt
Mynd: Getty Images
Haddi leyfði einn bjór, menn fengu aðeins að slappa af þannig. Svo var bara strax farið að huga að endurheimt.
Haddi leyfði einn bjór, menn fengu aðeins að slappa af þannig. Svo var bara strax farið að huga að endurheimt.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
KA vann 1. deildina 2016 og hefur tekið skref upp á við síðan.
KA vann 1. deildina 2016 og hefur tekið skref upp á við síðan.
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
Það var ótrúlega mikilvægt að fá fyrsta markið
Það var ótrúlega mikilvægt að fá fyrsta markið
Mynd: Getty Images
Ívar Örn Árnason, leikmaður KA, ræddi við Fótbolta.net í dag. Hann er staddur á Írlandi ásamt mörgum af liðsfélögum sínum en KA menn ferðast í tveimur hópum frá Írlandi og fór fyrri hópurinn til Íslands í morgun.

Ívar var í byrjunarliði KA þegar liðið mætti Dundalk í seinni leik liðanna í 2. umferð forkeppni Sambandsdeildarinnar í gærkvöldi. Leikurinn endaði með jafntefli sem þýddi að KA tryggði sér sæti í 3. umferðinni og mætir þar belgíska liðinu Club Brugge.

Ívar fór vel yfir leikinn og leyndi sér ekki að hann var mjög ánægður og stoltur af sínu liði að hafa klárað verkefnið. Liðið skrifaði söguna þegar það vann Connah's Quay Nomads í 1. umferðinni og nú er liðið búið að taka eitt skref í viðbót.

Lestu um leikinn: Dundalk 2 -  2 KA

Þorði ekki að leyfa sér að vona
„Þetta var ótrúlegt í raun, svo súrrealískt að maður getur eiginlega ekki lýst því. Þegar maður fór inn í þetta tímabil, vitandi að maður væri að fara í Evrópu, þá þorði maður ekki að leyfa sér að vona að við myndum komast í 3. umferð og upplifa allt það sem fylgir því. Þetta var ógeðslega gaman," sagði Ívar.

„Frammistaðan var frábær, vörðumst vel, gerðum nóg, skoruðum tvö mörk og þetta var bara geggjað, get ekki lýst þessu neitt öðruvísi."

Klefi eða svínastía?
KA stendur í ströngu, næsti leikur er á mánudag gegn Val og svo er einvígi framundan gegn Club Brugge. Náðu menn að fagna sigrinum í gær?

„Leikurinn var klukkan 19:45 á staðartíma, þetta var sæmilega svínastían sem klefinn okkar var. Ég held að við hefðum allir fengið einhverja sveppasýkingu ef við hefðum farið í sturtu þarna. Menn fóru bara inn í klefa, drifum okkur upp í rútu og upp á hótel og beint í mat þar. Haddi leyfði nú einn bjór, menn fengu aðeins að slappa af þannig. Svo var bara strax farið að huga að endurheimt."

Smá sjokk en engar afsakanir
Ívar var beðinn um að lýsa aðstöðunni betur.

„Klefarnir einir og sér voru ótrúlegir, eins og maður myndi sjá í einhverri bíómynd. Svo var gervigrasið alveg... þú gast ekki reiknað hvernig boltinn skoppaði til að bjarga lífi þínu. Þetta var liggur við eins og fyrsta kynslóðin (af gervigrasi) sem kom í Laugardalinn á sínum tíma. Svo hjálpaði boltinn ekki, við erum vanir Select bolta sem er talinn frekar þungur. Við spiluðum með léttan bolta, en engar afsakanir; vissum að við værum að fara inn í slagsmál."

„Þeir héldu að Framvöllurinn væri okkar heimavöllur og sögðu bara vá. Töluðu í leiknum og eftir leikinn um að aðstaðan okkar væri geggjuð. Við sögðum nú að þetta væri ekki beint okkar aðstaða, en hún væri vissulega geggjuð."

„Þetta var alveg smá sjokk að spila fótbolta þarna. Gervigrasið sem við spiluðum á í 1. umferðinni, ég leyfi mér að fullyrða að það var svona 10 sinnum betra."


Í Evrópu snýst þetta um úrslit og að fara áfram
Eftir fyrstu æfingu og að hafa séð aðstöðuna, nær maður að gleyma þessu á meðan verkefninu stendur eða er maður að hneykslast á þessu?

„Þú ert ekki að fara hneykslast á einhverjum svona hlutum þegar þú ert kominn í Evrópu. Þú veist að það er bara mismunandi eftir liðum hvernig aðstæðurnar eru. Þó svo að við (KA) séum með mjög fínt gras þá er aðstaðan okkar ekkert frábær, við erum ekkert í stórum búningsklefum og bjóðum útiliðum ekki upp á frábæra aðstöðu þegar þau koma norður. En við erum allavega með gott gras. Maður lætur ekki svona litla hluti trufla sig neitt."

„Við vissum að þetta yrðu slagsmál, það var eiginlega ekki hægt að halda boltanum á jörðinni. Við vissum að við værum með tveggja marka forystu, þyrftum að vera klókir og skynsamir. Það var ótrúlega mikilvægt að fá fyrsta markið, skora á undan, það tók smá af herðunum. Við vissum samt að með einu marki og strax öðru í kjölfarið þá væru þeir komnir inn í þetta aftur. Þá hefði brekkan orðið helvíti mikil."

„Við vorum fyrst og fremst að reyna gera þetta eins fagmannlega og hægt var. Í Evrópukeppni snýst þetta fyrst og fremst um úrslit, eins og landsleikir, skiptir ekki máli hvað þú ert mikið með boltann eða skapar þér mikið, snýst um að komast áfram og í næstu umferð."


Dugar Ívari að vera 70% klár - Aldrei spurning að spila
Ívar missti af tveimur leikjum fyrir leikinn í gær vegna axlarmeiðsla. Hvenær var vitað að hann myndi spila leikinn í gær?

„Við erum með lækni og sjúkraþjálfara með okkur úti. Þeir eru búnir að stinga mig með nálum og með einhverjar bylgjur og rafmagn á þessu. Um leið og ég vissi að ég væri svona 70%, um leið og ég var farinn að finna dagamun á öxlinni, þá vissi ég að ég yrði klár í þennan leik. Ég er meira að segja merkilega góður í öxlinni í dag jafnvel þó að í seinni hálfleik hafi framherjinn þeirra verið að gera í því að grípa í höndina á mér og toga með því öxlina niður. Þetta er svoddan fantar, en voru mjög fagmannlegir eftir leik, óskuðu okkur bara góðs gengis og voru vel til í að taka spjallið."

Var áhætta að spila leikinn?

„Það er alltaf áhætta, það eru liðbönd og einhverjar sinar tognaðar. Ég er ekki búinn að fara í neina segulómun og veit ekki hvort það sé allt í lagi, en ég var með teipingu og axlarhlíf. Það var aldrei spurning um að spila eftir að hafa getað æft og farið í návígi daginn áður."

„Ég var ekki að búast við því að spila 90 mínútur en leikurinn spilaðist þannig að við lágum svolítið lágt niðri og þá viltu ekki vera að rugla í öftustu mönnum. Ég var góður allan leikinn og kláraði hann, er mjög þakklátur fyrir það."


Þú hefur ekki verið byrjaður að kalla á Hadda um að fá skiptingu?

„Nei nei nei, það hvarflaði ekki að mér í eina sekúndu."

Harry Kane Special frá framherja Dundalk
Ívar vann vítaspyrnu þegar skammt var eftir af leiknum, hann hefur sloppið við meiðsli þegar hann fór þar niður?

„Ég fékk mesta höggið á öxlina eftir svona 10 mínútur þegar ég fór upp í skallabolta og framherjinn beygði sig niður 'Harry Kane special' og ég lenti á öxlinni. Ég meiddi mig alveg við það en vildi ekki sýna það í eina sekúndu að ég væri eitthvað að drepast. Ég kvartaði bara aðeins í dómaranum og fór svo aftur í vörn."

„Í þessu víti þá sparkaði hann eiginlega bara í hnéð á mér og ég fór niður. Ég sé eiginlega mest eftir því, var eiginlega bara einn á móti markmanni og hefði bara átt að skora úr þessu. Það er fínt að Grímsi fái markið. Það er bara flott."


Þetta var smá klafs í vítateignum, fór boltinn nokkuð í höndina á þér þegar þú tókst við boltanum í aðdraganda brotsins?

„Þetta er allt svo skýjað, boltinn lendir á hnakkanum Rodri og varnarmanni Dundalk. Ég treð mér bara á milli þeirra og fæ boltann í mig, held að ég hafi ekki fengið hann í höndina. Ef það gerðist þá er það af því að höndin á mér er læst út af einhverju teipingu og ég hef ekki fundið fyrir því."

Skýtur á svokallaða sérfræðinga
Ívar kom svo inn á stærð úrslitanna.

„Þetta lið er helvíti gott jafnvel þó að þessir svokölluðu sérfræðingar á Íslandi séu búnir að rakka þetta niður. Það var talið töluvert afrek þegar Breiðablik náði í úrslit á útivelli á móti Shamrock. Þetta er lið sem er búið að vinna það lið tvisvar í röð. Ég set fulla virðingu á þetta Dundalk lið, þetta eru alvöru spilarar og fullt af góðum leikmönnum; leikmenn sem eru með tugi landsleikja. Þetta eru ótrúlega stór úrslit sem við fengum fyrir klúbbinn og fyrir Ísland; að komast í þessa þriðju umferð."

Sæmilega sjokkið fyrir gutta af Brekkunni
Hvernig líst þér á Club Brugge, að fara til Belgíu?

„Það verður fyrst og fremst geggjuð upplifun, að fá að sjá hvernig aðstæður eru hjá liði sem var í 16-liða úrslitum Meistaradeildarinnar í fyrra. Ég held að þetta verði sæmilega sjokkið fyrir gutta af Brekkunni. En það verður líka gaman að fá þá „heim" í Úlfarsárdalinn og sjá þá gera þetta á teppinu þar."

Eftir því sem fréttamaður kemst næst er góður möguleiki á því að heimaleikur KA gegn Club Brugge fari fram á Laugardalsvelli. Nánar verður fjallað um það þegar nær dregur leiknum.

Leið aldrei eins og KA myndi detta út
Í leiknum í gær var staðan lengi vel 1-1. Hvernig leið KA mönnum með þá stöðu?

„Það var í rauninni ekkert stress, vissum að þeir yrðu meira með boltann og vissum að aðstæður voru erfiðar. Við Dusan vorum mjög þægilegir, þó að þeir hafi verið með alvöru skepnu; alvöru nagg þarna fram á við sem við þurftum að eiga við. Við vissum að þetta yrði mikið af krossum og mikið af seinni boltum inn í teig sem við þyrftum að vinna. Þeir eiga skot í slá sem hefði gert alvöru leik úr þessu, en að sama skapi eigum við líka skot í slána. Mér leið aldrei eins og við værum að fara detta út, jafnvel þó að Írinn hafi gjörsamlega verið að urða yfir allt og alla inn á vellinum, þá trúðum við að við værum að fara klára þetta einvígi."

„Það hefði verið skemmtilegra að vinna báða leikina, hefði verið betra upp á stigagjöfina í Evrópu, en við tökum þessu eins og þetta var. Við skorum fimm mörk, vorum búnir að vera í smá ströggli að skora, en núna getum við ekki hætt að skora. Það er bara fínt."


Ekta bresk stemning
Ívar talar um Írann á hliðarlínunni, er hann að tala um stjóra heimaliðsins?

„Hann byrjaði leikinn rosalega peppaður en þegar leið á leikinn, á svona 20. mínútu, þá var hann gjörsamlega búinn með röddina sína. Hann reyndi að öskra, maður sá munninn á honum hreyfast, en það heyrðist ekki múkk í honum lengur, röddin alveg sigruð."

„En ég var meira að tala um í stuðningsmönnum í stúkunni. Þeir voru duglegir t.d. þegar Hrannar var að taka innköst að koma alveg upp að auglýsingaskiltunum, berja í þau og kalla móður hans hitt og þetta. Menn glotta bara, þetta er fyndið og við töluðum eftir leik um að þetta var svona ekta bresk stemning. Í öllum vafaatriðum risu allir upp úr sætum og byrjuðu að öskra úr sér lungun. Þetta var magnað kvöld hérna í Dundalk á Írlandi."


„Að gera þetta með þessum strákum er bara geðveikt"
Er hægt að bera saman að vinna þetta Evrópueinvígi og það að komast í bikarúrslitaleikinn?

„Mér fannst eiginlega sætara að komast í bikarúrslitin, en þetta er ekki galin samlíking. Þetta er svo mikill léttir, veist hvað þú ert að gera fyrir félagið með því að komast svona langt í þessari keppni. Það er mikilvægt og vonandi getur það drifið heimavöllinn okkar í gang og gert þetta almennilega."

„Að gera þetta með þessum strákum... kjarninn í þessum hóp er búinn að vera saman í öll þessi ár, búnir að fara upp um deild, verið í miðjumoði í efstu deild og erum svo komnir á efsta stigið. Að gera þetta með þessum strákum er bara geðveikt,"
sagði Ívar að lokum.
Athugasemdir
banner
banner
banner