Forgangsatriði fyrir Man Utd að fá Gyökeres - Zirkzee til Aston Villa?
   fim 04. október 2018 17:10
Elvar Geir Magnússon
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Kastar Hamren kjúklingum í djúpu laugina?
Elvar Geir Magnússon
Icelandair
Spennandi val framundan á morgun!
Spennandi val framundan á morgun!
Mynd: Fótbolti.net - Bára Dröfn Kristinsdóttir
Arnór í leik með U21 landsliðinu.
Arnór í leik með U21 landsliðinu.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Jón Dagur er spennandi leikmaður.
Jón Dagur er spennandi leikmaður.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Á morgun mun Erik Hamren opinbera sinn annan landsliðshóp og ljóst er að það verða talsverðar breytingar frá fyrsta hópnum. Ljót úrslit síðasta landsleikjaglugga, endurkoma lykilmanna af meiðslalistanum og ungir leikmenn sem banka á dyrnar eru helstu ástæður.

Komandi leikir eru ekki auðvaldara verkefni en þeir síðustu. Heimsmeistarar Frakka með alla sína sterkustu menn og svo Sviss aftur. Þungavigt. Velgengni íslenskra leikmanna á undanförnum dögum gefur þó vonandi góð fyrirheit.

Lykilmennirnir Jói Berg og Alfreð snúa aftur, sjóðheitir. Vonandi verður Aron Einar einnig í hópnum. Hann er farinn að æfa með Cardiff en á þó eftir að spila sinn fyrsta leik fyrir liðið.

Það voru stór skörð hoggin í fyrsta hóp Hamren og því miður var gæsin ekki gripin af þeim sem fengu tækifærið. Í raun var gæsin hvergi sjáanleg.

Hamren hefur nú fengið góðan tíma til að kynna sér þá leikmenn sem við eigum og kallað hefur verið eftir því að yngt verði í hópnum. Síðast Ólafur Jóhannesson í viðtali við RÚV.

Ég og minn góði vinur Tómas Þór tókum upp útvarpsþátt á Kybunpark í Sviss fyrir fyrsta leik Íslands í Þjóðadeildinni. Í þættinum lékum við okkur á því að setja saman úrvalslið þeirra leikmanna sem voru ekki með í verkefninu, voru meiddir eða ekki valdir. Sumir af þeim sem eru í liðinu eiga litla sem enga möguleika á að vera valdir á morgun.



Arnór Sigurðsson hlýtur að koma inn í hópinn. Ísland á ekki marga leikmenn sem hafa spilað í Meistaradeild Evrópu. Í raun hefði hann átt að vera í hópnum síðast.

Samúel Kári og Albert Guðmunds voru valdir í HM-hópinn og banka á dyrnar aftur. Svo er Jón Dagur Þorsteinsson annar ungur leikmaður á hraðri uppleið sem er farinn að vekja athygli í dönsku deildinni þar sem hann er á láni frá Fulham.

Til að koma nýjum mönnum inn þurfa aðrir að víka og ljóst að fróðlegur fréttamannafundur er framundan og margar spurningar. Mun Hamren halda áfram að velja Kolbein Sigþórsson þó hann spili engan félagsliðafótbolta?

Gareth Southgate landsliðsþjálfari Englands hélt fréttamannafund í morgun og vakti val hans mikla athygli. Hann er óhræddur við að kalla inn unga fríska leikmenn og spennandi að sjá hvort Hamren fari sömu leið. Leikurinn gegn Frökkum er vináttulandsleikur og við eigum ekki möguleika á að halda okkur í Þjóðadeildinni.

Það er engin fyrirstaða.
Athugasemdir
banner
banner
banner