Man Utd berst við Arsenal um Gyökeres - Chelsea og Napoli vilja Garnacho - Milan hættir að eltast við Rashford
   mið 04. október 2023 14:25
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Stór stund fyrir Blika - „Þeir geta talað en ég hlusta ekki á þá"
Breiðablik mætir Zorya á Laugardalsvelli
Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari Breiðabliks.
Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari Breiðabliks.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Höskuldur Gunnlaugsson, fyrirliði Breiðabliks.
Höskuldur Gunnlaugsson, fyrirliði Breiðabliks.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Blikar fagna marki.
Blikar fagna marki.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Breiðablik tapaði á svekkjandi hátt gegn KR í síðasta leik.
Breiðablik tapaði á svekkjandi hátt gegn KR í síðasta leik.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Úr leik Breiðabliks og Maccabi Tel Aviv.
Úr leik Breiðabliks og Maccabi Tel Aviv.
Mynd: EPA
Leikurinn á morgun fer fram á Laugardalsvelli.
Leikurinn á morgun fer fram á Laugardalsvelli.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Davíð er á meiðslalistanum.
Davíð er á meiðslalistanum.
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
Hvað gera Blikar á morgun?
Hvað gera Blikar á morgun?
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
Blikar skrifa söguna á morgun, fyrsti heimaleikurinn í riðlakeppni í Evrópu.
Blikar skrifa söguna á morgun, fyrsti heimaleikurinn í riðlakeppni í Evrópu.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari Breiðabliks, og Höskuldur Gunnlaugsson, fyrirliði liðsins, sátu fyrir svörum á fréttamannafundi í dag. Á morgun spilar Breiðablik einn sinn stærsta leik í sögunni þegar liðið spilar sinn fyrsta heimaleik í riðlakeppni Sambandsdeildarinnar. Þetta er í fyrsta sinn sem íslenskt karlalið spilar heimaleik í riðlakeppni í Evrópu.

Andstæðingurinn á morgun er Zorya Luhansk frá Úkraínu. Þetta er lið sem er í næst neðsta sæti úkraínu úrvalsdeildarinnar sem stendur og líklega fyrirfram er mesti möguleikinn fyrir Blika að ná í góð úrslit í riðlinum gegn þeim.

„Við vitum að þeir gerðu jafntefli við Gent í fyrsta leiknum. Þeir spiluðu þann leik mjög vel og voru mjög skipulagðir, og öflugir. Þeir eru gríðarlega duglegir, þetta er ungt og orkumikið lið. Þeir eru sterkir í skyndisóknum og með öflugan framherja frá Panama, Guerrero. Þeir hafa farið í riðlakeppnina nokkrum sinnum," sagði Óskar Hrafn um Zorya.

„Þeir eru með nýjan þjálfara og það hefur ekki gengið vel hjá þeim í deildinni heima. Þeim hefur kannski ekki tekist að halda vel á spilunum á tveimur stöðum, frekar en sumir aðrir. Við eigum bara von á gríðarlega erfiðum leik. Við eigum von á leik þar sem tempóið verður hátt og við verðum að jafna kraftinn þeirra."

„Ég tek undir það sem Óskar sagði," sagði Höskuldur. „Leikmannahópurinn á eftir að fá skýrari mynd á þá sem andstæðinga, en það kemur núna á eftir. Eins og Óskar sagði, þá er þetta ekki í fyrsta sinn sem þeir eru í riðlakeppni og þeir náðu sterku jafntefli við Gent. Leikmannahópurinn er að undirbúa sig í að vera upp á sitt allra besta til að ná góðum úrslitum."

Þeir meta möguleikana bara góða á að geta strítt Úkraínumönnunum á morgun.

„Ég met okkar möguleika bara fína. Zorya er mjög öflugt lið og menn skulu ekki láta plata sig á því að þeir hafi átt í smá vandræðum í deildinni. Úkraínska deildin er öflug og jöfn," sagði Óskar og hélt áfram:

„Við mætum í þennan leik með tvö markmið, að sýna góða frammistöðu og að henni fylgi góð úrslit. Við mætum í leikinn til að vinna hann og ætlum okkur að vinna þennan leik og teljum okkur eiga raunhæfa möguleika á því. En við getum ekki mætt eins og við gerðum á móti KR, við getum ekki mætt eins og við höfum gert á köflum í sumar. Við þurfum að eiga okkar besta leik og það er alltaf þannig í Evrópu. Það þarf allt að smella. Þú mátt eiginlega ekki gera mistök og þarft að refsa fyrir þau mistök sem andstæðingarnir gera. Ef þú gerir það ekki eru eiginlega engar líkur á að þú fáir eitthvað út úr leiknum."

„Við mætum í þennan leik, ætlum að reyna að stjórna honum og ætlum að reyna að vinna hann."

Menn hafa misjafnar skoðanir á því
Breiðablik tapaði 3-2 gegn Maccabi Tel Aviv frá Ísrael í fyrsta leiknum. Blikar lentu 3-0 undir en sýndu karakter, og þeir sýndu að þeir ættu heima í þessari keppni.

„Að undanskyldum mínútum fimm til 30, þá sýndi liðið að það eigi erindi á móti þessum liðum. Það er gott að fá staðfestingu á því," sagði Óskar Hrafn en hann er með skýra sýn á það hvernig liðið eigi að mæta til leiks í þessa Evrópuleiki.

„Menn hafa misjafnar skoðanir á því hvernig eigi að nálgast þessa leiki. Sumir vilja hafa varkárni í þetta og aðrir vilja fara með allt á fullt. Þeir sem standa ekki nálægt liðinu hafa ekkert að segja. Þeir geta talað en ég hlusta ekki á þá. Ég held að þetta hafi sýnt fram á það að við þurfum að vera hugrakkir, kraftmiklir og við þurfum að þora að vinna fram á við. Við þurfum að þora að halda boltanum og við þurfum að stíga upp með liðið. Ef við ætlum að leggjast sjálfir, þá verður enginn ákefð í varnarleiknum okkar. Góð lið þrýsta okkur niður á köflum en þá reynum við alltaf að komast aftur upp. Um leið og við föllum sjálfur, þá getum við orðið mjög flatir. Eins og við urðum í fyrri hálfleik í Ísrael. Við þurfum að reyna að komast alltaf upp á völlinn, að stíga upp. Við erum bestir eftir því sem við getum varist ofar."

„Maccabi liðið er þvílíkt öflugt og þeir pakka hverju einasta liði saman í deildinni í Ísrael. Við getum staðið í þessum liðum en við þurfum að girða fyrir mistök í okkar eigin vítateig. Við þurfum að skerpa okkur þar."

Fór úr kerfinu seinna um kvöldið
Breiðablik tapaði síðasta deildarleik sínum gegn KR á ótrúlegan hátt, 4-3 eftir að hafa verið 3-1 yfir þegar uppbótartíminn hófst.

„Hann fór úr kerfinu seinna um kvöldið þegar Evrópusætið var tryggt. Það var mjög súrt hvernig sá leikur endaði en í stóra samhenginu skipti það mestu máli að ná Evrópusæti. Maður var pirraður í nokkra tíma en svo heyrir sá leikur sögunni til," sagði Höskuldur en Blikar tryggðu sér Evrópusæti seinna á sunnudagskvöldið þegar Valur lagði FH.

„Ef það er eitthvað sem maður er búinn að læra á þeim stutta tíma sem ég hef þjálfað Breiðablik, þá er það að það þýðir ekkert að dvelja við leiki; hvort sem það eru sigur- eða tapleikir. Það er of stutt í næsta verkefni," sagði Óskar. „Við erum þakklátir Valsmönnum að klára FH-inga og tryggja það að Evrópusætið var í höfn á sunnudag. Það er aldrei þægilegt að þurfa að treysta á aðra, en Evrópusætið er í höfn og það er léttir. Svo er það bara þannig að það á hver leikur sitt líf. Það á hver keppni sitt líf. Leikirnir í Evrópukeppni hafa þá tilhneigingu að vera öðruvísi en leikirnir heima fyrir. Við köstuðum þessum leik aftur fyrir okkur á mánudaginn og einbeitum okkur að þessum leik. Það hefur gengið ágætlega."

Blikar hafa höktað í deildinni að undanförnu en bæði Óskar og Höskuldur telja það skiljanlegt.

„Það er ákveðinn léttir að hafa tryggt þetta Evrópusæti, að vera búnir að því. Við erum með sjálfstraust í Evrópu og höfum sýnt flotta frammistöðu þar í allt sumar. Við höfum ekki haft úthald né styrk, kannski andlega líka, til að vera alltaf með topp frammistöðu á báðum vígstöðum. Það er bara hægara sagt en gert. Ég get líka verið pólitískur með það. Allar deildir alls staðar eru að veita liðum Í Evrópu svigrúm. Svo líka 'budget-ið' sem við erum með, við getum ekki ferðast eins og lúxusdrottningar á milli leikja. Þetta hefur verið áskorun," sagði Höskuldur og bætti við:

„Hvað varðar framhaldið er þetta bara tilhlökkun. Við ætlum að sýna okkar allra besta í Evrópu, eins og ég tel að við höfum gert í sumar. Ég er ekki smeykur um að við drögum slepju úr íslensku deildina í leikinn á morgun."

Óskar tók þá til orðs og sagði: „Auðvitað reynum við að undirbúa menn eins vel og hægt er fyrir hvern einasta leik. Fyrir ákveðna leiki er auðveldara að ná mönnum upp, og Evrópuleikirnir hafa verið þannig í sumar. Við erum að ganga í gegnum þetta í fyrsta skipti, þetta langa tímabil. Ég held að á ákveðnum tímapunkti lendi maðurinn á vegg líkamlega og andlega. Það er bara spurning hversu lengi það varir. Mín upplifun er sú að fyrir Evrópuleikina og fyrir leiki á móti ákveðnum liðum, þá hafa menn náð að kasta öllu því sem heitir þreyta, líkamleg og andlega, fyrir borð. Ég held að það verði raunin á morgun. Ég held að það átti sig allir á því að við erum að fara að spila heimaleik í riðlakeppni, og þeir sem eiga í vandræðum með að mótívera sig í þannig leik ættu sennilega að finna sér eitthvað annað að gera. Þetta er svolítið þannig."

„Höskuldur og leikmennirnir þurfa sjálfir að finna af hverju þeir eru í þessu. Svo þurfum við þjálfararnir að undirbúa þá vel eins og hægt er."

Leikið á Laugardalsvelli
Leikurinn á morgun fer fram á Laugardalsvelli. Kópavogsvöllur stenst ekki kröfur sem UEFA gerir til leikja Í Evrópukeppni.

„Auðvitað væri maður til í að spila í Kópavoginum, en það er líka gaman að spila á Þjóðarleikvanginum. Við vissum að við myndum ekki spila á Kópavogsvelli samkvæmt kröfum UEFA. Það er tilhlökkun að spila hérna," segir Höskuldur.

„Ég er sammála," sagði Óskar. „Okkur líður vel á Kópavogsvelli og okkur hefur gengið vel í Evrópuleikjum þar. Við höfum haft langan tíma til að undirbúa það að það myndi ekki gerast. Við stjórnum þessu ekki. Það er margt verra en að spila á Laugardalsvelli þó þetta sé ekki okkar heimavöllur. Það er allt blátt hérna og lítið sem minnir á Breiðablik. Vonandi náum við að búa til þannig stemningu að okkur líði eins og heima hjá okkur, og mætum þannig. Völlurinn er ágætur og við fögnum því að spila hér."

Óskar sagði að lokum að staðan á hópnum væri þokkalega góð.

„Staðan er þokkaleg. Davíð Ingvars er meiddur á ökkla, Kristófer Ingi er meiddur á kálfa og verður ekki með. Annars eru allir í þokkalegu standi."

Leikur Breiðabliks og Zorya hefst á morgun klukkan 16:45 og hvetjum við alla til að skella sér á þennan merkilega leik.
Athugasemdir
banner
banner