Arsenal orðað við fjóra sóknarmenn - Real Madrid að sækja bróður Mbappe líka - Zidane efstur á lista Ratcliffe - Barcelona á eftir De Gea
banner
   mán 04. desember 2023 19:30
Ívan Guðjón Baldursson
Frank býst við að halda Toney í vetur
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Enski framherjinn Ivan Toney er gríðarlega eftirsóttur þrátt fyrir að hafa ekki spilað keppnisfótbolta í hálft ár. Hann er í leikbanni vegna brota á veðmálareglum enska knattspyrnusambandsins og fær ekki að spila fótbolta aftur fyrr en í seinni hluta janúar.

Toney á eitt og hálft ár eftir af samningi sínum við Brentford og er félagið aðeins reiðubúið til að selja hann fyrir rétt verð. Chelsea, Arsenal og Manchester United eru meðal félaga sem hafa verið sögð áhugasöm um að krækja í þennan kröftuga framherja.

Thomas Frank, knattspyrnustjóri Brentford, hefur þó trú á því að Toney verði áfram hjá félaginu út tímabilið.

„Við viljum ekki tapa honum á miðju tímabili. Ég held að hann verði áfram leikmaður Brentford 1. febrúar," sagði Frank við fréttamann Evening Standard um helgina.

Toney er 27 ára gamall. Hann skoraði 21 mark og gaf 5 stoðsendingar í 35 leikjum með Brentford á síðustu leiktíð.

Gareth Southgate gaf Toney tækifæri í fyrsta sinn með enska landsliðinu í mars, þegar hann kom inn af bekknum á lokakaflanum í 2-0 sigri gegn Úkraínu í undankeppni EM.

Toney dreymir um að spila meira fyrir enska landsliðið en Harry Kane er með fast byrjunarliðssæti í fremstu víglínu.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner