Janúartilboð frá Liverpool í Kerkez og Zubimendi - Forest vill Ferguson - Man Utd hefur áhuga á Raum og Yildiz
   mið 04. desember 2024 08:00
Brynjar Ingi Erluson
Guehi braut aftur reglur - „Þurfum að róa okkur aðeins“
Marc Guehi
Marc Guehi
Mynd: Getty Images
Marc Guehi, fyrirliði Crystal Palace á Englandi, skrifaði annan leikinn í röð skilaboðin „Ég elska þig, Jesú“ á regnbogafyrirliðaband sitt, en honum gæti verið refsað fyrir athæfi sitt.

Í síðasta leik Palace var hann með sama armband með sömu skilaboðum en enska fótboltasambandið gaf honum áminningu um það að það megi ekki koma með pólitísk eða trúarleg skilaboð á fyrirliðabandinu.

Fyrirliðar ensku úrvalsdeildarinnar klæðast regnbogaböndum til að sýna LGBTQ+ samfélaginu stuðning en þetta hefur vakið mikla athygli síðustu tímabil. Sam Morsy, fyrirliði Ipswich, neitaði því að spila með bandið af trúarástæðum og það sama gerði Anel Ahmedhodzic er hann klæddist fyrirliðabandinu með Sheffield United í fyrra. Báðir eru múslimar.

Þetta athæfi Guehi í leiknum í gær gæti komið honum í bobba en hann gæti átt von á sekt frá enska fótboltasambandinu. Oliver Glasner, stjóri Palace, segir að fólk þurfi að slaka aðeins á.

„Við þurfum að róa okkur aðeins. Allir þekkja Marc og vita að hann er frábær leikmaður. Hann er með frábæran persónuleika og er mjög hógvær náungi. Hann klæddist þessu bandi til að styðja LGBT og allir eru að hugsa um samþættingu, á móti mismunun og það á líka við um Marc. Við erum öll með sömu skoðun. Við erum í íþróttum og þar erum við alltaf gegn mismunun og ofbeldi af öllu tagi. Marc er þar meðtalinn,“ sagði Glasner í gær.
Athugasemdir
banner
banner
banner