Kristófer Páll Viðarsson er genginn í raðir Hattar/Hugins frá Reyni Sandgerði en þetta kom fram í tilkynningu frá Hetti/Hugin í gær.
Kristófer er 27 ára gamall vængmaður sem ólst upp á Austfjörðum en hann lék með Leikni F.
Árið 2017 samdi hann við Fylki og lék með liðinu í Inkasso-deildinni áður en hann skipti yfir í Selfoss. Hann hefur einnig spilað með Grindavík og Reyni Sandgerði, en á síðasta ári var hann valinn besti leikmaður 3. deildar og í liði ársins er hann fór með Reyni upp í 2. deild.
Hann yfirgaf Reyni eftir þetta tímabil er liðið féll niður í 3. deild og hefur nú samið um að leika með Hetti/Hugin á komandi tímabili.
Þar fær hann tækifærið til að spila aftur með bróður sínum, Sæþóri Ívan, en þeir tveir spiluðu saman hjá Reyni árið 2021.
Höttur/Huginn hafnaði í 7. sæti 2. deildar á síðasta tímabili.
Athugasemdir