Aston Villa og Man Utd gætu skipst á leikmönnum - Onana falur fyrir 20 milljónir punda - Isak fer ekki frá Newcastle
   þri 05. september 2023 16:30
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
„Svo fæ ég bara símtal frá Guðlaugi Victori, góðvini mínum"
Icelandair
Alfreð Finnbogason.
Alfreð Finnbogason.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Guðlaugur Victor Pálsson.
Guðlaugur Victor Pálsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Sóknarmaðurinn Alfreð Finnbogason gekk frekar óvænt í raðir belgíska félagsins Eupen fyrir stuttu.

Þetta var óvænt í ljósi þess að Alfreð hafði stuttu áður skrifað undir samning við danska úrvalsdeildarfélagið Lyngby, en hann og félagið fengu svo gott tilboð frá Belgíu.

Alfreð var í viðtali við Fótbolta.net á landsliðsæfingu í gær þar sem hann var spurður út í skiptin. Hvernig komu þau til?

„Fyrst og fremst kom þetta nokkuð óvænt upp, ég var byrjaður á tímabili þar sem ég var búinn að skuldbinda mig Lyngby. Svo fæ ég bara símtal frá Guðlaugi Victori, góðvini mínum, hvort ég gæti séð þetta fyrir mér. Ég sagði að ég væri ekkert að leitast eftir því að fara í annað lið, en maður hlustar alltaf á alla sem hafa áhuga á manni. Það vill svo til að hann (Gulli) var með þjálfara sem ég þekki til; hafði reynt að fá mig áður þegar hann var þjálfari hjá Werder Bremen og við þekkjumst aðeins. Þetta var bara þannig pakki fyrir mig, tveggja ára tilboð, fara í betri deild og heildarpakkinn var það spennandi fyrir mig að mér fannst það þess virði að stökkva á hann," sagði Alfreð.

„Maður veit aldrei þegar maður er kominn yfir þrítugt hvaða tækifæri eru í boði og hvaða möguleikar koma upp. Maður getur ekki valið sér það og mér fannst þetta þannig tækifæri að ég þyrfti að stökkva á það. Þar sem Gulli var þarna þá gat ég fengið upplýsingar um allt, hvernig lífið sé þarna og hvernig liðið sé. Ég sá að það var rulla fyrir mig á vellinum og líka í kringum liðið. Ég er gríðarlega ánægður að hafa tekið þessa ákvörðun."

Sjá einnig:
Áttu löng og erfið samtöl - „Ekki margir 34 ára sem fá tveggja ára samning á fínum pakka"

Ákveðin viðbrigði
Eupen er ekki stór bær í Belgíu. Hvernig er að fara þangað eftir að hafa búið í Kaupmannahöfn?

„Það eru ákveðin viðbrigði hvað lífið varðar. Köben er alþjóðleg stórborg sem er æðislegt að búa í og við fjölskyldan áttum saman frábært ár þar - kannski fær maður tækifæri á því einhvern tímann seinna að búa þar aftur. Eupen er mjög lítill bær, en það góða við það er að það er mjög stutt í marga fallega og góða staði. Þegar þú ert kominn í Mið-Evrópu þá er stutt að ferðast á flotta staði. Daglega rútínan er nokkurn veginn sú sama, sama hvar þú býrð, en það er alltaf gaman að vera í stórri og flottri borg þegar þú ert með frídaga."

Eupen er í eigu Katara. Alfreð sagði nánar frá félaginu.

„Þeir eiga Aspire akademíuna, keyptu þetta lið upphaflega til að undirbúa landsliðið fyrir HM. Þeir eru ennþá eigendur, en er stýrt af Þjóðverjum. Þetta er þýskumælandi svæði og maður sér katarska og þýska blöndu þarna."

„Þeir rétt sluppu við fall í fyrra og ég held að markmiðið sé að ná í stöðugleika í deildinni. Á frábæru tímabili komumst við í efstu úrslitakeppnina - topp sex. Annars er miðju úrslitakeppnin allt í lagi. Fyrst og fremst snýst þetta um að halda sér í deildinni. Það er nýr þjálfari og fullt af nýjum leikmönnum, nýtt verkefni farið af stað þarna."

Erum góðir félagar
Alfreð lék með Lokeren í Belgíu tímabilið 2011-12. Er gott að vera kominn til Belgíu aftur?

„Já, ég var ekki að stefna beint á að fara aftur til Belgíu, en lífið tekur mann oft aðrar leiðir en maður planar sjálfur. Það er erfitt að vera með augljóst plan í fótbolta því það koma tækifæri og möguleikar sem maður þarf að stökkva á og taka þegar þau koma. Mér líður mjög vel þarna, ég átti frábæran tíma í Hollandi líka og Þýskaland er ekki langt frá."

Guðlaugur Victor Pálsson er einnig á mála hjá Eupen en hann og Alfreð spiluðu saman í yngri flokkum Fjölnis.

„Við erum góðir félagar og höfum alltaf verið í mjög nánu sambandi. Við spiluðum saman í Fjölni og það er mjög gott að vera með Íslending með sér í liði, ég tala nú ekki um þegar það er mjög góður félagi þinn. Það er gott að hafa hann fyrir aftan sig að stýra hlutunum," sagði Alfreð en viðtalið má sjá í heild sinni í spilaranum hér fyrir neðan.
Alfreð: Þá verður maður sjálfur hálf geggjaður
Athugasemdir
banner