Sú saga gengur nú um að Kristinn Freyr Sigurðsson sé að skoða það að yfirgefa herbúðir FH.
Kristinn Freyr gekk í raðir FH fyrir síðustu leiktíð frá Val. Tímabilið var erfitt hjá FH og var liðið í fallbaráttu lengi vel. Kristinn, sem er þrítugur miðjumaður, spilaði 24 deildarleiki fyrir FH og skoraði þrjú mörk.
Í útvarpsþættinum Fótbolta.net um liðna helgi var sagt að Kristinn Freyr væri að hugsa um að yfirgefa FH-inga. Ólafur Jóhannesson fékk hann til FH, en þeir unnu líka saman hjá Val. Ólafur var látinn fara frá FH á síðustu leiktíð.
Davíð Þór Viðarsson, yfirmaður fótboltamála hjá FH, býst hins vegar ekki við öðru en að Kristinn Freyr verði áfram í Kaplakrika.
„Hann er með samning út 2024. Það er ekkert annað inn á borði hjá okkur núna," segir Davíð Þór við Fótbolta.net.
„Hann er einn allra besti leikmaðurinn í þessari deild. Hann er okkar leikmaður og ég á ekki von á öðru en að hann verði áfram hjá okkar á næsta ári."
Aðspurður segist Kristinn Freyr vera með hugann við FH. „Ég er áfram samningsbundinn félaginu og er að einbeita mér að FH," segir miðjumaðurinn öflugi.
Athugasemdir