mið 06. janúar 2021 07:30
Ívan Guðjón Baldursson
Sæmundur og Hörður Máni í ÍR (Staðfest)
Mynd: ÍR Facebook
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
2. deildarlið ÍR var að bæta tveimur ungum leikmönnum við hópinn sinn sem skrifa undir þriggja ára samninga.

Hörður Máni Ásmundsson, fæddur 1999, á 29 leiki að baki með Ými og Augnablik og einn með Haukum í Inkasso-deildinni sumarið 2019.

Hörður Máni er vinstri bakvörður að upplagi sem getur einnig spilað á miðjunni. Hann er uppalinn í Kópavogi og hefur spilað með HK á liðnum undirbúningstímabilum og Ými á Íslandsmótinu.

Sæmundur Sven A. Schepsky, fæddur 1998, á 47 leiki að baki fyrir Elliða og Úlfana, auk eins leiks fyrir Aftureldingu í Mjólkurbikarnum sumarið 2018.

Sæmundur er stór miðvörður, uppalinn hjá Víkingi R., sem hefur áður leikið með ÍR. Hann spilaði fyrir félagið í Reykjavíkurmótinu og Lengjubikarnum veturinn 2019.

„Ég þjálfaði Sæma í yngri flokkunum í Víkingi og hann æfði með meistaraflokki Aftureldingar þegar ég tók þar við. Ég taldi hann á þeim tímapunkti þurfa meiri spiltíma heldur en ég gat boðið honum uppá. Nú tel ég hann tilbúinn til að leggja af mörkum til að hjálpa okkur að vinna deildina og fagna því mjög að hafa fengið Sæma til liðs við okkur," sagði Arnar Hallsson, þjálfari ÍR, um Sæmund.

„Ég hef lengi vitað af Herði Mána og hvaða eiginleika hann hefur sem leikmaður. Hann hefur styrkt sig mikið líkamlega, er góður spyrnumaður og hefur næmt auga fyrir samleik. Ég hef fulla trú á að hann muni falla vel inn í leikstílinn og hópinn. Hörður er tilbúinn til að leggja hart að sér til að hjálpa okkur að ná markmiðum okkar. Hörður getur án vafa vaxið mikið með liðinu á næstu árum.“

ÍR endaði með 19 stig úr 20 leikjum í 2. deildinni í fyrra, þremur stigum fyrir ofan fallsæti.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner