„Tilfinningin er bara góð og gott að taka KR svona verðskuldað. Það sýnir hvað við getum og sigurinn var bara flottur," sagði Guðmundur Andri Tryggvason, leikmaður Vals, eftir 4-1 sigur á KR í úrslitaleik Reykjavíkurmótsins.
Andri er uppalinn í KR en fór ungur út í atvinnumennsku og gekk í raðir Vals fyrir tímabilið í fyrra.
Andri er uppalinn í KR en fór ungur út í atvinnumennsku og gekk í raðir Vals fyrir tímabilið í fyrra.
Lestu um leikinn: Valur 4 - 1 KR
„Mér fannst við ekki nægilega fókuseraðir í byrjun en eftir svona hálftíma þá fannst mér við vera betri. Svo fannst mér við byrja seinni hálfleikinn mjög vel. Eftir að við skoruðum annað markið okkar þá fannst mér yfirburðirnir vera mjög miklir."
Andri byrjaði á bekknum í dag en kom inn á þegar Andri Adolphsson þurfti að fara meiddur af velli eftir 29 mínútna leik. Eftir að [Guðmundur] Andri kom inn á breyttist leikurinn og Valsmenn litu betur út.
„Það er gaman að koma inn á og skora með fyrstu snertingu."
„Nei ég var ekkert ósáttur, ég bjóst við því að byrja á bekknum. Ég er ekki búinn að vera æfa mikið, ég fékk þetta blessaði Covid og formið er bara aðeins að koma."
Andri skoraði fyrsta mark Vals, jöfnunarmarkið. Patrick Pedersen sá svo um markaskorunina í seinni hálfleik, skellti í þrennu.
„Hann er alltaf í hörku standi, flottur leikur hjá honum. Hann er búinn að vera mjög flottur eins og allir í liðinu. Við erum búnir að æfa gríðarlega vel undanfarna daga þannig mér líst bara helvíti vel á þetta."
Helgi Sigurðsson stýrði liði Vals af hliðarlínunni í dag. Hann kom inn í þjálfarateymið í desember.
„Hann var flottur, gaman að hafa einn sem öskrar svona mikið á hliðarlínunni. Ég er spenntur að vinna með honum."
Markmiðin fyrir tímabilið?
„Við ætlum að gera miklu betur en í fyrra, þetta er gott skref í átt að því. Auðvitað ætla ég persónulega líka að gera betur. Núnar er maður búinn að vera aðeins lengur með strákunum, þetta er flottur hópur og ég er bara mjög spenntur fyrir þessu tímabili," sagði Andri.
Viðtalið í heild má sjá í spilaranum að ofan
Athugasemdir