Guimaraes, Silva, Van Persie, Yamal, Gil, Giroud og fleiri í slúðurpakkanum
banner
   fös 06. maí 2022 21:09
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Ítalía: Albert gerði sitt fyrsta mark í ótrúlegum sigri
Albert Guðmundsson.
Albert Guðmundsson.
Mynd: EPA
Inter er á toppnum en AC Milan er með leik til góða.
Inter er á toppnum en AC Milan er með leik til góða.
Mynd: EPA
Landsliðsmaðurinn Albert Guðmundsson gerði í kvöld sitt fyrsta deildarmark í Serie A á Ítalíu er Genoa vann magnaðan sigur gegn Juventus.

Paulo Dybala kom Juventus yfir á 48. mínútu og 20 mínútum eftir það ákvað þjálfari Genoa að kalla í Albert og setja hann inn á. Það borgaði sig því Albert jafnaði metin á 87. mínútu. Hann tók laglegt hlaup á bak við varnarmann Juventus og kláraði ansi vel.

Í uppbótartímanum fékk Genoa svo vítaspyrnu sem Domenico Criscito skoraði úr. Lokatölur 2-1 fyrir Genoa sem er einu stigi frá öruggu sæti; ansi mikilvægt mark hjá Alberti í kvöld. Juventus er í fjórða sætinu.

Inter þurfti að hafa fyrir hlutunum
Fyrr í kvöld lenti Inter í ansi kröppum dansi gegn Empoli á heimavelli sínum.

Empoli tókst mjög óvænt að ná tveggja marka forystu í fyrri hálfleik. Andrea Pinamonti skoraði strax á fimmtu mínútu og gerði Kristjan Asllani annað mark Empoli á 28. mínútu. Ekki góð staða sem var þar komin upp fyrir Inter, en þeir bitu heldur betur frá sér eftir það.

Inter náði inn marki á besta tíma og Lautaro Martinez jafnaði svo metin fyrir leikhlé. Leikmenn Inter mættu tvíefldir inn í seinni hálfleikinn og kláruðu verkefnið. Martinez gerði sitt annað mark og Alexis Sanchez batt lokahnútinn á 4-2 sigur.

Þetta er afar mikilvægur sigur fyrir Inter sem er með einu stigi meira en nágrannarnir í AC Milan á toppnum. AC Milan á þó leik til góða. Empoli er í 14. sæti.

Genoa 2 - 1 Juventus
0-1 Paulo Dybala ('48 )
1-1 Albert Gudmundsson ('87 )
2-1 Domenico Criscito ('90 , víti)

Inter 4 - 2 Empoli
0-1 Andrea Pinamonti ('5 )
0-2 Kristjan Asllani ('28 )
1-2 Simone Romagnoli ('40 , sjálfsmark)
2-2 Lautaro Martinez ('45 )
3-2 Lautaro Martinez ('64 )
4-2 Alexis Sanchez ('90 )
Athugasemdir
banner
banner
banner